Inngangur

Markmið þessa leiðarvísis er að auðvelda nemendum Verkmenntaskóla Austurlands vinnu við verkefni sín og samræma reglur um framsetningu og vinnubrögð skriflegra verkefna við skólann. Hér má finna leiðbeiningar um uppsetningu heimilda-, rannsóknarritgerða, og skýrslna ásamt ítarlegri samantekt á reglum varðandi heimildaskráningu. Í leiðarvísinum má einnig finna reglur um ritstuld þar sem kennurum er ráðlagt að styðjast við forrit sem nema ritstuld af neti. Markmiðið með sameiginlegum reglum um ritstuld er að nemendur Verkmenntaskóla Austurlands temji sér vandaðri vinnubrögð við meðferð heimilda og annarra gagna sem aflað er til skriflegra verkefna. Einnig má finna vinnureglur fyrir kennara skólans í þessu hefti er lýtur að yfirferð verkefna. Þessar útlínur sem markaðar eru fyrir nemendur og kennara í verkefnavinnu eru settar til þess að auka gæði náms við skólann og samræmi milli áfanga hans. Þó skal hafa í huga að áfangar skólans eru mismunandi uppbyggðir og ræður verkefnalýsing kennara alltaf ferðinni, en mælst er til þess að kennarar hafi leiðarvísi þennan í huga þegar verkefni eru lögð fyrir. Því skulu nemendur spyrja kennara viðkomandi áfanga ef eitthvað er óljóst í kröfum og framsetningu verkefna.  

Verkmenntaskóli Austurlands gerir kröfur um að nemendur vinni heimildaverkefni sín eftir stöðlum APA-kerfisins. APA (American Psychological Assocation) - kerfið er ein af viðurkenndum aðferðum heimildaskráningar og er mikið notað bæði á Íslandi og erlendis. Heimildaskráningarkerfið er gert með það í huga að einfalda og samræma reglur í heimildaskráningu við flókin verkefni eins og til dæmis rannsóknir. Að hafa samræmd viðmið til að styðjast við gefur aukna möguleika á að skilja gögn og auðvelda gagnaöflun t.d. með því að leita nýrra heimilda. Að styðjast við sama heimildakerfi í gegnum ritgerðir gefur textanum betra flæði heldur en ef um handahófskennda uppröðun heimilda væri að ræða og er það einmitt tilgangur APA kerfisins. Með auknu magni heimilda á netinu hefur skráningakerfi APA breyst undanfarin og því nauðsynlegt að uppfæra þær upplýsingar um skráningu heimilda sem fyrir voru á heimasíðu skólans.