Rannsóknarritgerð - verkefnalýsing

Hvað á að gera:

  • Velja rannsóknarefni

  • Lesa sér til um rannsóknarefnið og skipuleggja rannsóknina

  • Semja fræðilegan kafla og inngang með rannsóknarspurningu og tilgátu út frá því sem lesið er.

  • Kynna sér rannsóknaraðferð vel og skipuleggja framkvæmd.

  • Framkvæma rannsókn. Skrá nákvæmlega niður hvernig rannsókn er framkvæmd.

    • Skrá niðurstöður skipulega um leið og rannsóknin er framkvæmd. 

    • Viðtal þarf að taka upp ef munnlegt og afrita.

  • Vinna niðurstöðukaflann sem fyrst.

  • Klára ritgerðina eftir leiðbeiningum hér að neðan og muna að vanda allan frágang.

Uppbygging rannsóknarritgerðar:

  • Forsíða

  • Inngangur

  • Fræðilegur kafli

  • Aðferð

  • Niðurstöður

  • Umræða

  • Lokaorð

Forsíða:

Á forsíðu á að koma fram heiti eða nafn á rannsókn, nafn höfundar (þú), námsgrein, nafn kennara, nafn skóla, dagsetning og ártal.

Inngangur:

Í inngang á að kynna efnið sem rannsóknin er byggð á og uppbyggingu ritgerðar. Einnig þarf að koma fram hver sé tilgangurinn með rannsókninni og rannsóknarspurningin. Gott er að fara stuttlega inn á hver forþekkingin á efninu er. 

Rannsóknarspurningin segir hverju þú ætlar að komast að með rannsókn þinni.

Fræðilegur kafli:

Á hverju rannsóknin er byggð? Fræðilegur bakgrunnur og mikilvægt að fara yfir öll lykilhugtök og skilgreiningar þeirra. Tengingin við kennsluefnið, hvaða kenningar liggja fyrir um efnið, hvað þarf lesandinn að vita til að skilja restina af ritgerðinni? Hérna eru sterkar heimildir og örugg heimildanotkun mjög mikilvægur þáttur.

Aðferð:

  • Almennt um rannsóknaraðferðina – eigindleg eða megindleg aðferðafræði?

  • Þátttakendur (t.d. aldur, kyn, fjöldi o.s.frv). 

  • Tæki: hvaða tæki eru notuð.

  • Rannsóknin útskýrð skref fyrir skref. Þessi kafli á að vera það nákvæmur að hver sem er á að geta endurtekið rannsóknina þó að hann hafi ekkert í höndunum nema skýrsluna þína.

  • Upplýst samþykki (ef það á við): Þú þarft að taka fram að þú hafir upplýst þátttakendur um tilgang rannsóknar, hvar niðurstöður birtast, að þeir njóti nafnleyndar og fengið samþykki þeirra.

Niðurstöður:

Í þessum kafla á að birta niðurstöður. Setja ber niðurstöður fram á skýran og hnitmiðaðan hátt. Allar rannsóknir gefa niðurstöður, burt sé frá því hvort þær heppnast eða ekki. Niðurstöður úr viðtölum eru oft sett fram flokkuð sem þemu eða sem saga.

Umræða:

Umræða og útskýringar á niðurstöðum. Hvernig passa niðurstöður við upplýsingar í fræðilegum kafla. Hér má  túlka niðurstöður og ræða styrkleika og veikleika viðkomandi rannsóknar. Eru niðurstöður í samræmi við það sem búist var við? Hvaða ályktanir má draga af niðurstöðunum? Voru einhverjir gallar við rannsóknina og framkvæmd hennar? Hvernig mætti betur fara? Vera ófeimin við að skrifa eigin hugsanir. 

Lokaorð:

Taka saman helstu niðurstöður úr köflunum að ofan. Engar nýjar upplýsingar eiga að koma fram hér. Enda á því að svara rannsóknarspurningu.

TILVÍSANIR OG HEIMILDASKRÁ

Ekki gleyma að vísa til þeirra heimilda sem þú notar og láttu heimildaskrá fylgja - APA

ATH! að í rannsóknarritgerð á ekki að skrifa í 1. persónu þ.e það á ekki nota t.d. „ég“ eða „okkur“ og mikilvægt er að gera greinarmun á staðreyndum og skoðunum