Skýrsla - verkefnalýsing

Uppbygging skýrslu: 

  • Inngangur

  • Aðferð

  • Niðurstöður 

  • Umræða-túlkun 

  • Heimildir

 

Efst í skýrslu (eða á forsíðu) á að koma fram:  nafn stofnunar (skóli), nafn áfanga, dagsetning og heiti rannsóknar/tilraunar.

Inngangur:

Í inngangi á að koma fram hvað er verið að athuga með rannsókninni/tilrauninni, tilgangur og markmið. Einnig skal skrá hvaða reglur eða lögmál eru til athugunar, þ.e. umfjöllun um efnið.

Ef verið er að prófa tilgátu er hún sett fram hér og reynt að útskýra hvers vegna sú tilgáta er sett fram.

Aðferð:

Í aðferðakafla er rannsókninni/tilrauninni lýst nákvæmlega. Gott að skipta kaflanum í undirkafla. 

Efni og áhöld: Hér eru talin upp þau efni og áhöld sem notuð eru við framkvæmd rannsóknar/tilraunar og hvernig áhöldin eru sett upp (þetta síðasta getur þó oft átt betur heima í framkvæmdalýsingu).

Framkvæmd: Hér á að lýsa nákvæmlega framkvæmd rannsóknar/tilraunar. Oft er gott að nota mynd til að lýsa uppsetningu tækja eða til nánari útskýringar. Framkvæmdarlýsing á að vera þannig að hægt sé að framkvæma rannsókn/tilraun eftir henni. Athugið að skýrslu á ekki að skrifa í 1. persónu (ekki segja „við mældum“ heldur „mælt var“).

Niðurstöður:

Í niðurstöðukafla er greint frá öllum niðurstöðum. Útreikningar eru sýndir og efnajöfnur ritaðar ef við á. Ávallt skal reyna að hafa niðurstöður sem myndrænastar, þ.e. nota töflur, línurit, súlurit , myndir af smásjársýnum o.s.frv. 

Í þessum kafla á ekki að ræða niðurstöður, það er gert undir kaflanum umræður.

Umræður og túlkun:

Í umræðukafla eru niðurstöður skoðaðar og ályktun dregin af þeim. Greint er frá fræðum sem eru á bak við rannsóknina/tilraunina (lögmál, formúlur o.fl.) með tilvísun í heimildir (t.d. kennslubók). Ef tilgáta var sett fram er henni svarað hér þ.e. „Tilgátu hafnað eða hún meðtekin eftir því sem við á“.

Hér á að skýra frá öllum þáttum (ef einhverjir eru) sem hafa haft áhrif á rannsóknina/tilraunina eða niðurstöðurnar. Til dæmis ef eitthvað mistókst þá er reynt að útskýra hversvegna. Einnig ef það er eitthvað sem vert er að skoða betur. 

Ef einhverjar spurningar fylgja verkefnalýsingu er þeim svarað hér. 

Nafn samstarfsfólks:           Undirskrift:

Heimildir

Skráning heimilda