Tilvísanir

Við gerð heimildaverkefna er skylda að vísa í heimildir í texta verkefnisins. Með því móti getur lesandinn séð hvaða heimild höfundur notar hverju sinni. Tilvísanir birtast í sviga eftir að höfundur hefur notast beint eða óbeint við heimild í skrifum sínum. Taka skal fram hver sé höfundur, útgáfuár heimildar og blaðsíðutal (bls.) þegar það á við. Tilvísunin kemur í sviga eftir notkun á heimild, punktur skal vera á eftir sviga. Ef höfundar er ekki getið fer titill greinar, bókar o.s.frv. settur í höfundarsæti. (Sjá dæmi um heimildaskráningu). Ef vísað er beint (orðrétt) skal setja gæsalappir, texti skal vera skáletraður og tilvísun beint á eftir. Ef bein tilvísun er lengri en 3 setningar skal gera greinarskil, gera tilvísunina inndregna og minnka letrið.  (10 pt. letri). 

Dæmi um tilvísun: 

Eftir að þessi lög tóku gildi var landhelgi og fiskveiðilögsaga Íslendinga færð frá 3 mílum til þeirra 200 sem hún er í dag, en hún var færð í þremur skrefum og því voru þorskastríðin þrjú (Guðni Th. Jóhannesson, 2004, bls. 36).

Dæmi um beina tilvísun inni í texta:

Mörg álita mál komu upp í fyrsta þorskastríðinu eins og aðferðafræði íslenskra stjórnmálamanna í samningaviðræðum við Breta. Aðferðir Hermanns Jónassonar og Guðmundar þóttu klaufalegar í baráttunni um 3 mílna lögsögu og seinka framvindu mála og spurðu margir sig hvort ,,Bretar ekki betur tekið tilboði Hermanns Jónassonar og Guðmundar Í Guðmundssonar vor og sumar 1958 um veiðirétt til þriggja ára upp að sex mílunum”? (Guðni Th. Jóhannesson, 2004, bls. 63). 

Dæmi um lengri beinni tilvísun: 

Henry Kissinger sem var orðinn utanríkisráðherra Bandaríkjanna árið 1973 hafði mikinn áhuga á deilum Íslendinga og Breta. Kissinger sagði við Edward Heath forsætisráðherra Breta, að Bandaríkjamenn ætluðu ekki að skipa Bretum fyrir verkum í utanríkismálum. Þó væri mjög slæmt að eitt af stóru NATO-ríkjunum eins og Bretland væri í miklum deilum við smáþjóðina Ísland sem var Atlantshafsbandalaginu svo mikilvæg. Ekki stóð á viðbrögðum Heath eins og má lesa í bókinni Þorskastríðin Þrú:

,,Edward Heath skildi áður en skall í tönnum. Miðvikudaginn 3. október - á elleftu stundu- sigldi verndarflotinn út fyrir 50 mílurnar. Togarakarlarnir léki Rule Britannica í talstöðvarnar eins og þeir höfðu gert þegar sjóherinn lét sjá sig 19. maí en bættu síðan við öðru lagi, The Party is Over: ballið er búið. Næstu daga fengu varðskipin þau skilaboð frá stjórnstöð, og þar með Óalfi Jóhannessyni að taka öllu rólega. Um miðjan mánuðinn flaug hann svo út til viðræðna við Edward Heath í London, staðráðinn í að koma heim með samkomulag sem bindi enda á átökin” (Guðni Th. Jóhannesson, 2004, bls. 101). 

Tilvísanir í netheimildir

Ekki er notast við blaðsíðutal þegar vitnað í heimild af vefsíðu. Stundum vantar ártal í netheimildum og notast þá skal við skammtöfunina e.d. - enginn dagsetning í tilvísun. Annars gilda sömu reglur um tilvísun um heimildir af neti og útgefnar heimildir. Varast skal þó að nota heimildir af neti þar sem höfund og dagsetningu vantar og gott er að spyrja sig hversu áreiðanleg og góð heimild slík vefsíða er. 

Dæmi um tilvísun af netinu: 

Á hverju sumri starfa tugir nemenda við Árnastofnun við rannsóknir og önnur verkefni. Eitt verkefni sumarsins 2019 var ákaflega áhugavert en þá unnu stúdentar að því að gera orðabók Sigfúsar Blöndal aðgengilega á stafrænu formi. Bókin kom út á árunum 1920-1924 (Gömul orðabók…., 2019).