Til foreldra

Rannsóknir sýna að stuðningur og hvatning foreldra skiptir miklu máli varðandi námsárangur nemenda. Hækkaður sjálfræðisaldur gefur foreldrum tækifæri á að fylgjast vel með mætingum og ástundum barna sinna fram að átján ára aldri. Foreldrar hafa aðgang að upplýsingum um mætingar í Innu, upplýsingakerfi framhaldsskólanna. Sýnt hefur verið fram á að sterk fylgni er milli mætinga og námsárangurs og því full ástæða til að hvetja foreldra til að fylgjast vel með þessum málum.

Heimanám

Þar sem heimanám er stór þáttur í öllu skólanámi er mikilvægt að því sé sinnt vel. Fari verkefni að hrannast upp er hætta á að það valdi kvíða og spennu. Nauðsynlegt er að foreldrar fylgist vel með hvernig unglingnum þeirra reiðir af í skólanum því þannig er hægt að grípa snemma inn í ef eitthvað ber út af  og veita nemandanum stuðning og hvatningu.

Verið ekki feimin við að fylgjast með námi barna ykkar þó þau séu komin í framhaldsskóla

Markmið

Mikilvægt er að nemendur viti hvert þeir stefa og að þeir setji sér ákveðin markmið. Sá nemandi sem hefur skoðað áhugasvið sitt, hæfileika og leikni á auðveldara með að finna sig í náminu og ná árangri heldur en sá sem ekki veit hvert hann stefnir.

Upplýsingar

Nauðsynlegt er að koma til skólans upplýsingum sem þið teljið að geti skipt máli varðandi nám unglingsins ykkar. Þetta geta verið upplýsingar um  námserfiðleika, erfiðleika sem koma upp í einkalífinu, prófkvíða eða í raun allt það sem getur hamlað því að nemandi nái árangri í námi.

Við erum til staðar fyrir nemendur en getum ekki greitt götu þeirra nema við fáum upplýsingar um það sem bjátar á. Það er eitt af okkar markmiðum að stuðla að því að samstarf heimils og skóla sé sem öflugast. Við hvetjum ykkur því til að hringja eða líta við.