Heilsustefna

Verkmenntaskóli Austurlands leitast við að vera heilsueflandi framhaldsskóli. Markmið skólans er að bæta heilsu og líðan þeirra sem starfa og nema við skólann og hafa heilsuhvetjandi áhrif á umhverfi sitt. Markmiði sínu hyggst skólinn ná með samvinnu milli stjórnenda, starfsmanna, nemenda, aðstandenda og grenndarsamfélagsins. Nemendur og starfsfólk er hvatt til virkrar þátttöku og aukinnar meðvitundar um gildi bættrar heilsu og líðan og stefnunni er ætlað að hafa jákvæð áhrif á daglegar venjur og starf í skólanum.

Skólinn tekur þátt í verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli sem er samstarfsverkefni Lýðheilsustöðvar, Heilbrigðisráðuneytis, Mennta- og menningamálaráðuneytis og Samtaka framhaldsskólanema. Verkefnið er víðtækt og leitast verður eftir að uppfylla markmið á eftirfarandi sviðum: mataræði, hreyfingu, geðrækt, áfengi- og vímuefni, tóbak og rafrettur, öryggi og að lokum starfsfólk og verklag.

Mataræði

Markmið

Stuðla að aukinni neyslu á hollum mat og skilningi á mikilvægi þess að tileinka sér hollar matarvenjur.

Leiðir að markmiði

  • aukin fræðsla – bæði almenn í skólanum og fléttuð inn í námsgreinar
  • bjóða upp á næringaríka, holla og fjölbreytta fæðu í mötuneyti
  • skoða reglulega fæðuframboð í mötuneyti með tilliti til manneldismarkmiða, ráðleggingar Landlæknisembættisins og „Handbókar um mataræði í framhaldsskólum.“
  • tryggja að aðgengi að drykkjarvatni sé gott í skólanum
  • að bjóða upp á hollari valkost á fundum og viðburðum á vegum skólans

 

Hreyfing

Markmið

Hvetja til daglegrar hreyfingar meðal starfsmanna og nemenda skólans og efla meðvitund um gildi hreyfingar fyrir andlega og líkamlega heilsu

Leiðir að markmiði

  • hvetja nemendur og starfsfólk til að hreyfa sig og stunda íþróttir
  • flétta inn í skólastarf fræðslu um mikilvægi hreyfingar fyrir andlega og líkamlega heilsu
  • hvetja til og standa fyrir ýmsum viðburðum sem byggjast á hreyfingu
  • bjóða upp á íþrótta og hreyfitengda áfanga á hverju ári
  • auka samstarf við íþróttafélög á svæðinu og bjóða upp á akademíur fyrir afreksíþróttafólk
  • bjóða upp á kynningar á möguleikum til hreyfingar í samfélaginu (e.t.v. jaðargreinar).

 

Geðrækt

Markmið

Að við skólann sé jákvæður skólabragur sem einkennist af virðingu fyrir einstaklingnum og uppbyggilegum samskiptum. Hlúð sé að andlegri heilsu nemenda og starfsmanna og allir leggi sig fram við að efla góðan starfsanda í skólanum

Leiðir að markmiði

  • gildi andlegrar heilsu sé haldið á lofti og áhersla lögð á forvarnir gegn geðrænum sjúkdómum
  • leitast sé við að bjóða upp á þjónustu eða samvinnu fagaðila fyrir nemendur og starfsmenn sem á þurfa að halda
  • bjóða upp á áfanga sem efla nemendur og bæta færni í samskiptum, auka skilning þeirra á eigin líðan og viðbrögðum og þar með möguleikum á að bæta líðan sína
  • nemendur með staðfesta greiningu um geðrænan vanda mæti skilningi og sveigjanleika varðandi verkefnaskil og mætingu
  • vinna að almennri fræðslu um geðræna kvilla, raskanir, sjúkdóma og fatlanir
  • leggja áherslu á jákvæð viðhorf og vinna gegn fordómum
  • stuðla að góðri sjálfsmynd nemenda og starfsfólks
  • halda á lofti mikilvægi góðra svefnvenja

 

Áfengi- og vímuefni, tóbak og rafrettur

Markmið

Að stuðla á sem víðtækastan hátt að aukinni meðvitund um mikilvægi heilbrigðs lífstíls og heilsuræktar. Tryggja að Verkmenntaskóli Austurlands sé tóbaks-, nikótíns-, áfengis- og vímuefnalaus og miðla upplýsingum um skaðsemi þessara efna

Leiðir að markmiði

  • fræða nemendur um skaðsemi notkunar tóbaks, nikótíns, áfengis og annarra vímuefna
  • fræða nemendur um skaðsemi nikotínvara á borð við nikotínpúða og nikotínvökva í rafrettum
  • hafa aðgengilegar upplýsingar um hvert sé hægt að leita eftir aðstoð sérfræðinga og stuðningsaðila kjósi fólk að leita sér aðstoðar vegna notkunar á tóbaki, áfengi eða öðrum vímuefnum
  • eftirlit sé með og reynt að tryggja að ekki sé notkun á tóbaki, nikotínvörum, áfengi né vímuefnum í skólanum, á lóð skólans né á viðburðum tengdum skólanum
  • efla foreldra í uppeldis- og eftirlitshlutverkum sínum og stuðla að samvinnu milli heimilis og skóla

 

Jafnrétti og kynheilbrigði

Markmið

Að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og þannig tryggja stöðu kynjanna á öllum sviðum skólans. Allir einstaklingar, nemendur og starfsfólk, skulu eiga jafna möguleika óháð kyni.

Leiðir að markmiði

  • hafa skýra jafnréttisáætlun
  • halda á lofti mikilvægi kynheilbrigðis og bjóða upp á fræðslu á því sviði
  • gæta jafnréttissjónarmiða í stefnumótun og ákvörðunum á öllum sviðum skólans
  • vinna að jöfnum áhrifum kvenna og karla í skólanum
  • vinna gegn allri mismunun á grundvelli kyns, þ.m.t. launamisrétti
  • gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf
  • efla fræðslu um jafnréttismál
  • greina tölfræðiupplýsingar eftir kyni
  • vinna gegn kynbundnu ofbeldi og áreitni
  • útrýma hefðbundnum kynjaímyndum og neikvæðum staðalímyndum um hlutverk kvenna og karla

 

Öryggi

Markmið

Tryggja öryggi í skólahúsnæðinu og að öryggisáætlun skólans sé framfylgt.

Leiðir að markmiði:

  • nemendur og starfsmenn séu upplýstir um öryggisáætlanir - Handbók um viðbrögð við vá
  • rýmiæfing verði haldin einu sinni á ári.
  • öryggis- og áhættumati sé viðhaldið og leitað sé úrbóta hið fyrsta þegar þörf er á
  • bjóða upp á skyndihjálparnámskeið annað hvert ár
  • sjá til þess að öryggisfulltrúi og öryggistrúnaðarmaður séu starfandi við skólann og störf þeirra séu kynnt starfsmönnum við upphaf skólaárs

 

Starfsfólk og verklag

Markmið

Að skapa vinnuumhverfi sem laðar að hæft starfsfólk og gerir það eftirsóknarvert að vinna við skólann þannig að hann geti sinnt hlutverki sínu með sóma og standist samanburð við aðra framhaldsskóla.

Leiðir að markmiði

  • að skólinn ráði hæft starfsfólk sem hefur þekkingu á viðfangsefnum skólans
  • að skólinn sé áhugaverður og aðlaðandi vinnustaður
  • að starfsandinn sé góður
  • að þess sé gætt að jafnræði og sanngirni gildi um meðferð mála
  • að nemendum og öðrum sé sýnt vinsamlegt viðmót
  • að verklagsreglur skólans séu skýrar, starfsfólki og nemendum ljósar
  • að starfsfólk VA hafi þekkingu/aðgang að nýjustu upplýsingum um lög og reglugerðir sem skólinn starfar eftir
  • að gætt sé fyllsta trúnaðar varðandi persónulegar upplýsingar um nemendur sem starfsfólk öðlast í starfi.

Síðast uppfært 25. maí 2021