Heimavistarreglur VA

1. gr

Heimavistin er heimili nemenda og skulu þeir njóta heimilisfriðar að fullu.  Markmið heimavistarreglna er að tryggja hvíldar- og vinnufrið vistarbúa og vera til leiðsagnar ef heimilisfriðnum er stefnt í hættu.

2.gr

Skólameistari fer með yfirstjórn heimavistar og heimavistarstjóri í umboði hans.

3.gr

Heimavistarstjórn skipa: skólameistari, heimavistarstjóri og vistarráð skipað tveimur  til þremur fulltrúum nemenda sem kosnir eru af íbúum heimavistar í upphafi skólaárs.  Hlutverk vistarráðs er að vera tengiliður nemenda við heimavistarstjórn og funda um hagsmunamál nemenda. Einnig að skipuleggja félagslíf meðal heimavistaríbúa.  Heimavistarstjórn kemur saman eigi sjaldnar en tvisvar á önn.

4.gr

Ákvörðun um dvöl á heimavist jafngildir samningi við yfirvöld skólans um góða ástundun náms (skólasókn og verkefnaskil/vinnuframlag) og góða umgengni.

5.gr

Eftir kl. 19.00 á að vera friður og næði til heimanáms. Því skulu heimavistarbúar leitast við að valda ekki ónæði með óþarfa hávaða og ofnotkun hljómflutningstækja, tölvu eða sjónvarps.

6.gr

Heimavistarbúar annast ræstingu á herbergjum sínum, sturtuklefa og salerni. Herbergin skulu þrifin minnst einu sinni í viku. Þar að auki taka vistarbúar þátt í ræstingu á sameign heimavistar eftir nánari ákvörðun heimavistarstjóra og skólameistara. Heimavistarstjóri getur ákveðið nánar um frekari ræstingu á heimavistarhúsnæðinu á kostnað nemenda ef ekki er farið að þessari reglu.

7.gr

Skólameistari og heimavistarstjóri hafa aðgang að herbergjum vistarbúa á öllum tímum til eftirlits.

8.gr

Heimavistinni er læst kl. 24.00 alla daga. Ætlast er til að vistarbúar komi í hús fyrir lokunartíma. Ætli nemandi að vera fjarverandi um nætursakir skal hann tilkynna það heimavistarstjóra.  Ekki er ætlast til að nemendur dvelji yfir helgi á heimavistinni, nema ef veður eða fjarlægðir hamla ferðum.

9.gr

Gestir á heimavist skulu fara eftir þessum umgengnisreglum (og er hver vistarbúi ábyrgur fyrir gesti sínum).  Engar heimsóknir eru leyfðar eftir kl. 23:00. Leyfi til að hafa næturgesti er háð samþykki heimavistarstjóra og foreldra /forráðamanna nemanda undir 18 ára aldri og skal sækja um það til skólameistara með tveggja daga fyrirvara. Slík leyfi eru einungis veitt ef sérstakt tilefni er til, s.s. vegna atburða á vegum skólans.  Íbúar í Neskaupstað fá ekki leyfi til gistingar á heimavist. Skólameistari getur þó heimilað undanþágu frá þessu ákvæði. Nemendur á grunnskólaaldri hafa ekki heimild til að vera á heimavist eftir kl. 21:00 nema með sérstöku leyfi heimavistarstjóra eða skólameistara.

10.gr

Hver nemandi skal skila herbergi í sama horfi við annarlok og hann tók við því í upphafiNemanda er óheimilt að yfirgefa heimavistina í lok annar án þess að vistarstjóri hafi yfirfarið herbergið.  Ef skemmdir verða á herbergi og/eða sameign nemenda eru þeir bótaskyldir og skulu þeir greiða tryggingargjald að upphæð kr. 10.000.- Nemandi fær trygginguna endurgreidda í annarlok ef umgengni og umhirða er hnökralaus (sbr. 5.gr.).  

11.gr.

Skemmdir á húsum eða munum heimavistar skal tilkynna vistarráði nemenda sem kemur upplýsingum til heimavistarstjóra. Verði nemandi uppvís að þjófnaði á eignum og/eða munum vistarbúa eða starfsmanna, ber að vísa honum til skólameistara.

12.gr.

Reykingar eða tóbaksnotkun eru ekki heimilaðar í húsakynnum né á lóð heimavistar samkvæmt tóbaksvarnarlögum frá 1996. Sama gildir um notkun á hvers kyns rafsígarettum. 

13.gr

Neysla og geymsla áfengis og allt ónæði af völdum þess er óheimil í húsakynnum og á lóð heimavistar. Sama gildir um önnur vímuefni. Brot á þessari reglu geta varðað brottrekstri af heimavist samkv. húsaleigusamningum. Verði nemandi uppvís af að vera með áfengi á vistinni, er því umsvifalaust hellt niður.  Önnur vímuefni eru gerð upptæk og málinu vísað til lögreglu.  Fíkniefnahundur er notaður til reglubundins eftirlits á vistinni.

14.gr

Bifreiðum skal leggja í merkt bílastæði við heimavistina.  Óheimilt er að leggja ökutæki beint framan við anddyri heimavistar eða leggja þeim upp á gangstétt eða grasflöt utan bifreiðastæða.  Heimilt er að fjarlægja bíl sem lagt er ólöglega.

15.gr

Brot á heimavistarreglum varða áminningu. Hafi vistarbúi fengið fleiri en tvær áminningar telst það brottrekstrarsök af heimavist. Slík mál eru í höndum skólameistara.