Verknámsvika Verkmenntaskóla Austurlands og vinnuskóla Fjarðabyggðar

Á föstudaginn lauk verknámsviku VA og vinnuskóla Fjarðabyggðar en í henni fá 15 ára unglingar í vinnuskóla Fjarðabyggðar að kynnast verknámi í VA. Þetta er í fjórða sinn sem Verknámsvikan er haldin og tókst hún mjög vel. Vikan er samvinnuverkefni Fjarðabyggðar og VA. Unglingarnir voru ánægðir með vikuna og þau verkefni sem unnin voru.

Í verknámsvikunni fá nemendur að kynnast tveimur smiðjum á fjórum dögum og fimmti dagurinn er svo fræðsludagur þar sem unnið er með styrkleika nemenda, áhugakönnun, ýmis störf skoðuð og kynning á ART kennslu. Vikan endaði svo með sameiginlegu grilli þar sem nemenur voru kvaddir eftir góða viku.

Markmið vikunnar er m.a. að kynna nemendum iðn- og verknám og þeim möguleikum sem námið hefur upp á að bjóða. Í könnun sem gerð var í lok vikunnar kom m.a. í ljós að verknámsvikan hefur haft áhrif á viðhorf unglinganna til iðn- og verknáms á jákvæðan hátt og rúm 86% þeirra geta hugsað sér að stunda það nám í framtíðinni.