Fjarnám við Verkmenntaskóla Austurlands

Fjarnám í Verkmenntaskóla Austurlands (VA) er að mestu leyti nám á netinu og eru áfangar settir upp á Kennsluvefnum – moodle.va.is. Hér fyrir neðan má finna helstu upplýsingar varðandi fyrirkomulag fjarnáms.

Fyrstu skrefin 

Nemendur sækja um fjarnám í gegnum sérstakan fjarnámsvef. Hægt er að komast inn á hann í gegnum heimasíðu skólans.

Kennsla í fjarnámi við VA hefst á sama tíma og annað skólastarf nema annað sé tekið fram í skilaboðum til nemenda.

Þegar greiðsluseðill hefur verið greiddur fær nemandinn aðgang að kennsluvefnum.

Hver kennari setur tímaramma til verkefnaskila og ber að virða hann. Fjarnemar fá almennt ekki lengri tíma til verkefnaskila en dagskólanemendur í sama áfanga.

Ef nemandi, sem skráður er í fjarnám og hefur greitt fyrir það, hefur ekki samband við kennara fyrstu þrjár kennsluvikur annarinnar og lætur ekki vita af sér að öðru leyti áskilur Verkmenntaskóli Austurlands sér rétt til að skrá viðkomandi nemanda úr námi ef frekari eftirgrennslan hefur reynst árangurslaus.

Lendi nemandi í tæknilegum erfiðleikum með kennsluvefinn er honum bent á að hafa samband við kerfisstjóra skólans.

Námsfyrirkomulag

Fjarnám í Verkmenntaskóla Austurlands (VA) er að mestu leyti nám á netinu og eru áfangar settir upp á Kennsluvefnum – moodle.va.is.

Verkmenntaskólinn býður upp á fjarnám á sjúkraliðabraut og sjúkraliðabrú í samstarfi við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og Menntaskólann á Ísafirði. Einnig er í boði fjarnám á þjónstubrautum ( stuðningsfulltrúi og leikskólaliði). Þá eru margir áfangar af stúdentsbrautum í boði í fjarnámi og einnig er hægt að taka bóklega áfanga í húsasmíði. Námsframboð í fjarnámi er gert aðgengilegt á heimasíðu skólans á valtímabilum dagskóla fyrir hvora önn fyrir sig.

Einnig er dreifnám í boði við skólann í rafvirkjun en dreifnámið er blanda af fjarnámi og staðnámi. Nokkrir rafmagnsáfangar í vélstjórn verða einnig í boði í dreifnámi. Fagbóklegir hlutar námsins eru í fjarnámi og verklegir hlutar sem krefjast veru í smiðjum skólans eru kenndir í vinnustofum þrjú kvöld í viku.

Ekki er sett hámark á einingafjölda sem hægt er að taka á hverri önn, en bent er á að í nýrri námskrá samsvarar hver eining 18-24 klst. vinnu.

Athygli er vakin á því að fjarnemum er heimilt að sækja tíma ef og þegar þeir geta.

Að öllu jöfnu er fjarnám ekki ætlað nemendum í hefðbundnu dagskólanámi í VA.

Kennarar beita fjölbreyttum kennsluaðferðum og því verður munur frá áfanga til áfanga hversu mikið lesefnið er, hvernig verkefnin verða, hvort og þá hversu mörg próf eru í áfanganum og annað sem við á. Kennari getur valið að leggja námsefnið fyrir eins og hann telur best. Það getur verið kennslubók, kennsluefni á neti, eigið kennsluefni, myndbönd bæði eigin fyrirlestrar eða kynningar og af netinu, myndir eða annað sem hentar hverju sinni.

Samskipti

Samskipti við kennara fara fram á kennsluvefnum og tölvupósti. Á kennsluvefnum er að finna kennsluáætlanir, verkefni, próf og fleira, sem máli skiptir í náminu. Enn fremur eiga kennarar að bjóða nemendum upp á fundi þrisvar sinnum á önn, annað hvort í gegnum stað- eða fjarfund. Slíkir fundir eru þó ekki ætlaðir til einkakennslu.

Þegar fjarnemar senda kennurum erindi í tölvupóstinn hefur kennari allt að tvo virka daga til þess að svara tölvupóstinum.

Námsefni

Námsgagnalista má nálgast á heimasíðu skólans.

Aðgangur að kennsluvef og tölvukerfum

Allt nám fer fram í gegnum kennsluvefinn Moodle. Hér finna má svör við öllum helstu upplýsingum varðandi aðganga að tölvukerfum.

Að vera í námi

Nemendur þurfa að:

  • Sjá um að rétt netfang sé skráð í Innu.
  • Fylgjast reglulega með tölvupósti og gott er að kíkja reglulega í ruslpóstinn til þess að tryggja að póstar frá kennara og/eða úr Innu lendi ekki þar
  • Sjá um að skráning í fjarnám sé rétt.
  • Fylgjast með kennsluvef frá upphafi áfanga.
  • Finna prófstað ef það á við.
  • Skrá sig úr áfanga fyrir þar til greindan dag ef þeir hyggjast ekki ljúka áfanganum.

 

Verklagsreglur kennara

Kennari:

  • Sendir fjarnemum tölvupóst þar sem fjarnemar eru boðnir velkomnir í áfangann.
  • Gerir námsefni aðgengilegt á kennsluvefnum a.m.k. viku fram í tímann. Þar er átt við upplýsingar um lestur, verkefni, myndbönd, sýnidæmi o.fl.
  • Býður fjarnemum upp á fund þrisvar sinnum á önn, annað hvort staðfund eða fjarfund.
  • Svarar tölvupóstum frá fjarnemum eigi síðar en tveimur virkum dögum eftir móttöku.
  • Gefur fjarnemum reglulega endurgjöf á vinnuna.
  • Ýtir á óvirka nemendur.

Námstími - lokapróf

Haustönn er frá miðjum ágúst fram að jólum. Vorönn er frá janúarbyrjun til maíloka.

Ef nemandi hefur ekki tök á því að taka lokapróf í VA þá þarf hann að tilkynna áfangastjóra viðurkenndan prófstað, í síðasta lagi 2 vikum fyrir próf. Tilgreina þarf þá ábyrgðarmann sem tekur á móti prófinu.

Prófareglur VA gilda á öllum prófstöðum eftir því sem við á. Veikindi skal tilkynna bæði til skrifstofu VA og ábyrgðarmanns á prófstað ef hann er annar en VA.