Fjarnám við Verkmenntaskóla Austurlands

Markmið

Markmiðið með því að bjóða upp á fjarnám er að gefa sem flestum kost á að stunda framhaldsnám óháð staðsetningu og tíma.

Námsfyrirkomulag

Fjarnám í Verkmenntaskóla Austurlands (VA) er að mestu leyti nám á netinu og eru áfangar settir upp á Kennsluvefnum – moodle.va.is.

Boðið er upp á flest alla bóklega áfanga í fjarnámi.  Fjarnemar geta uppfyllt einingar í íþróttum með því að taka aðra áfanga, vilji þeir útskrifast af einhverri þeirra námsbrauta sem í boði eru í skólanum.

Ekki er sett hámark á einingafjölda sem hægt er að taka á hverri önn, en bent er á að í nýrri námskrá samsvarar hver eining 18-24 klst. vinnu.

Námið er fyrst og fremst hugsað sem sjálfsnám undir handleiðslu kennara.  Það krefst mikils aga og skipulagningar af hálfu nemenda og kennara.  Sjálfsagi er mikilvægur þar sem fjarnám er að hluta til sjálfsnám og ekki er hægt að fá svör frá kennurum um leið og spurningar vakna.  Það er því mikilvægt að lesa allar leiðbeiningar vel, hafa tímasetningar í heiðri og leysa öll verkefni, sem fyrir eru lögð.  Vakni spurningar, sem ekki eru svör við í námsumhverfinu (kennsluvefnum), er hægt að senda fyrirspurn til kennara og ber honum að svara eigi síðar en annan virkan dag.

Athygli er vakin á því að fjarnemum er heimilt að sækja tíma ef og þegar þeir geta.

Að öllu jöfnu er fjarnám ekki ætlað nemendum í hefðbundnu dagskólanámi í VA.

Kennarar beita fjölbreyttum kennsluaðferðum og því verður munur frá áfanga til áfanga hversu mikið lesefnið er, hvernig verkefnin verða, hvort og þá hversu mörg próf eru í áfanganum og annað sem við á. Kennari getur valið að leggja námsefnið fyrir eins og hann telur best. Það getur verið kennslubók, kennsluefni á neti, eigið kennsluefni, myndbönd bæði eigin fyrirlestrar eða kynningar og af netinu, myndir eða annað sem hentar hverju sinni.

Samskipti

Samskipti við kennara fara fram á kennsluvefnum og tölvupósti. Á kennsluvefnum er að finna kennsluáætlanir, verkefni, próf og fleira, sem máli skiptir í náminu.  Enn fremur eiga nemendur þess kost að hitta kennara eftir nánara samkomulagi þar um. Slíkir fundir eru þó ekki ætlaðir til einkakennslu.

Námsefni

Bókalista má nálgast á heimasíðu skólans.

Fyrstu skrefin

Nemendur sækja um fjarnám á heimasíðu skólans.

Kennsla í fjarnámi við VA hefst á sama tíma og annað skólastarf nema annað sé tekið fram í skilaboðum til nemenda.

Þegar greiðsluseðill hefur verið greiddur fær nemandinn aðgang að kennsluvefnum.

Hver kennari setur tímaramma til verkefnaskila og ber að virða hann.  Fjarnemar fá ekki lengri tíma til verkefnaskila en dagskólanemendur í sama áfanga.

Ef nemandi, sem skráður er í fjarnám og hefur greitt fyrir það, hefur ekki samband við kennara fyrstu þrjár kennsluvikur annarinnar og lætur ekki vita af sér að öðru leyti áskilur Verkmenntaskóli Austurlands sér rétt til að skrá viðkomandi nemanda úr námi ef frekari eftirgrennslan hefur reynst árangurslaus.

Lendi nemandi í tæknilegum erfiðleikum með kennsluvefinn er honum bent á að hafa samband við kerfisstjóra skólans.

Að vera í námi

Nemendur þurfa að:

 • hafa daglegan aðgang að nettengdri tölvu
 • bera ábyrgð á eigin námi
 • hafa lágmarkskunnáttu í tölvunotkun, þ.m.t. ritvinnslu
 • hafa nokkra æfingu í að nota veraldarvefinn og í framhaldi af því að geta tileinkað sér að vinna á kennsluvefnum. Þar eru m.a. bókalistar, kennsluáætlanir, verkefni, gagnvirk próf og ítarefni allra áfanga, sem kenndir eru í fjarnámi hverju sinni.
 • hafa tíma til að stunda námið.

 

Verklagsreglur kennara

 • Kennari setur skýra kennsluáætlun á kennsluvefinn þar sem fram koma markmið, tímaáætlun, verkefni og námsmat áfangans.
 • Nemendur hafa aðgang að glærum sem notaðar eru í tímunum á kennsluvefnum. Þar verða einnig lögð fram verkefni sem unnin eru í tímunum.
 • Kennari setur sig reglulega í samband við nemendur og athugar stöðu þeirra. Langvarandi óvirkni nemenda skal tilkynnast áfangastjóra.
 • Kennari á að svara fyrirspurnum nemenda innan tveggja virkra daga.
  • Kennara ber að setja námsefni fram á aðgengilegan hátt og leitast við að útskýra það fyrir nemendum á eins skýran hátt og honum er unnt. Einnig skal hann vísa nemendum á hvar ítarefni er að finna, fari hann út fyrir námsefnið eins og það er í aðalkennslubók(um) áfangans.
  • Kennari á að meta frammistöðu nemenda fyrir skil á verkefnum með einkunnum og/eða skriflegum umsögnum, sem fela í sér leiðbeiningar og útskýringar.

 

Verklagsreglur fjarnema

 • Til að ná árangri í námi er mikilvægt að stunda námið jafnt og þétt og skila verkefnum og vera í tengslum við kennara. Fjarnám  felur í sér aukna ábyrgð nemenda og krefst sjálfstæðari vinnubragða heldur en í dagskóla.
 • Nemanda ber að lesa kennsluáætlun ítarlega í upphafi.
 • Nemanda ber að fara inn á kennsluvefinn eins oft og kennarinn leggur til og ekki sjaldnar en vikulega.
 • Nemandi á að virða þær reglur, sem kennari setur um verkefnaskil.
 • Nemandi á að láta kennara og áfangastjóra vita ef hann ætlar að hætta námi í áfanganum.
 • Nemendur eru hvattir til að senda fyrirspurnir til kennara í tölvupósti eða í gegnum kennsluvefinn.
  • Til þess að nemandi hafi próftökurétt  þá verður hann að teljast vera virkur við upphaf prófa þ.e. hafa staðið skil á verkefnavinnu áfangans eins og kennari leggur upp með.

 

Námstími - lokapróf

Haustönn er frá miðjum ágúst fram að jólum. Vorönn er frá janúarbyrjun til maíloka.

Ef nemandi hefur ekki tök á því að taka lokapróf í VA þá þarf hann að tilkynna áfangastjóra viðurkenndan prófstað, í síðasta lagi 2 vikum fyrir próf. Tilgreina þarf þá ábyrgðarmann sem tekur á móti prófinu.

Prófareglur VA gilda á öllum prófstöðum eftir því sem við á. Veikindi skal tilkynna bæði til skrifstofu VA og ábyrgðarmanns á prófstað ef hann er annar en VA.