Hlutverk

Verkmenntaskóli Austurlands er framhaldsskóli sem starfar samkvæmt Aðalnámskrá framhaldsskóla, framhaldsskólalögum og öðrum lögum og reglugerðum sem snerta skólastarf á framhaldsskólastigi. Skólinn hefur að leiðarljósi þá grunnþætti menntunar sem tilteknir eru í Aðalnámskrá framhaldsskóla: Læsi, sjálfbærni, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti, heilbrigði og velferð ásamt sköpun.

                Skólinn leggur áherslu á að bjóða upp á fjölbreytt nám og mæta ólíkum áhugasviðum og hæfileikum nemenda. Sérstakt tillit er tekið til austfirsks samfélags í skólastarfinu og því er mikilvægt að byggja upp góð tengsl við aðra skóla, fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök í landshlutanum.

                Verkmenntaskóli  Austurlands er eini skólinn á austanverðu landinu sem gefur nemendum kost á að leggja stund á nám á iðn- og starfsnámsbrautum auk bóknámsbrauta. Þessi sérstaða skólans krefst þess að markvisst sé unnið að kynningu á því námi sem  boðið er upp á.

                Í skólastarfinu er leitast við að veita góða kennslu, auka víðsýni nemenda, hvetja til gagnrýninnar og skapandi hugsunar, efla samvinnu og tillitssemi og hvetja til virðingar fyrir umhverfi og samfélagi. Jafnframt er lögð áhersla á að nemendum gefist tækifæri til þátttöku í heilbrigðu og þroskandi félagslífi. Þá vill skólinn veita nemendum  stuðning eftir þörfum og sem fullkomnasta aðstöðu til náms og félagslegra athafna.

                Einkunnarorð skólans eru: SAMVINNA - ÞEKKING –ÁRANGUR