Reglur um námsframvindu

Frestur til að skrá sig úr áfanga eða breyta vali rennur út að jafnaði 3 vikum frá upphafi annar. Þurfi nemandi að segja sig úr áfanga vegna sérstakra aðstæðna eftir þann tíma, þarf beiðni að berast til námsráðgjafa.  Úrsögn úr áfanga er háð samþykki skólameistara og/eða skólaráðs.

  • Nemandi í fullu námi skal ljúka að lágmarki 15 einingum á önn. Undanþegnir ákvæði þessu eru nemendur á almennum námsbrautum (framhaldsskólabraut) og starfsbraut. Skólameistari getur heimilað undantekningu frá þessari reglu vegna skilgreindra námsörðugleika, veikinda og annarra óviðráðanlegra aðstæðna.
  • Ljúki nemandi ekki tilskildum einingafjölda á önn er skólastjórnendum heimilt að takmarka þann fjölda eininga sem hann fær að skrá sig í á næstu önn. Nemandinn getur þurft að sækja um skólavist að nýju og er honum þá gerð grein fyrir stöðu sinni þannig að hann geti einnig sótt um skólavist í öðrum framhaldsskólum. Skólanum er ekki skylt að endurinnrita nemandann.
  • Til að standast áfanga og fá leyfi til að hefja nám í næsta áfanga viðkomandi greinar þarf lágmarkseinkunnina 5. Þó er nemanda heimilt að útskrifast með einkunnina 4 í lokaáfanga greinar eða stökum áfanga ef hann á umframeiningar úr öðrum greinum.
  • Nemanda er einungis heimilt að þreyta próf þrívegis í sama áfanga.
  • Ef fall á lokaprófi í einum áfanga kemur í veg fyrir að nemandi geti útskrifast fær hann að taka endurtektarpróf í þeim áfanga í lok sömu annar.