Verkmenntaskóli Austurlands

VA

Verkmenntaskóli Austurlands í Neskaupstað var stofnaður árið 1986 fyrir tilstuðlan bæjarstjórnar Neskaupstaðar og Sambands Sveitarfélaga á Austurlandi. Þróun iðnskólanáms má rekja aftur til ársins 1943 þegar Iðnskólinn í Neskaupstað tók til starfa, en hann var rekinn af Iðnaðarmannafélagi Neskaupstaðar fram til ársins 1955.

Á grundvelli iðnfræðslulaga 1966 var ákveðið að Iðnskóli Austurlands yrði í Neskaupstað, en það var ekki fyrr en haustið 1971 að skipaður var skólastjóri við skólann. Fram að því hafði Iðnskólinn verið rekinn í nánum tengslum við Gagnfræðaskóla Neskaupstaðar. Við Gagnfræðaskóla Neskaupstaðar hófst framhaldsnám 1960 og 1972 hófst kennsla 1. bekkjar menntadeildar.

Árið 1977 hófst síðan fjölbrautarnám með áfangasniði við skólann.

Árið 1973 tekur til starfa samstarfsnefnd um fjölbrautanám í þeim tilgangi að samræma allt fjölbrautanám í Neskaupstað og á sama tíma er unnið að áætlun um framhaldsnám á Austurlandi af hálfu menntamálaráðuneytisins. Með samningi menntamálaráðuneytis og Bæjarstjórnar Neskaupstaðar 1981 var síðan Framhaldsskólinn í Neskaupstað stofnaður og tók þá alfarið við starfsemi Iðnskóla Austurlands og Gagnfræðaskólans í Neskausptað og skyldi vera kjarnaskóli iðn- og tæknimenntunar á Austurlandi.

Sérstaða skólans í dag, endurspeglast ekki síst í því að hann er eini skólinn á Austurlandi sem býður upp á verklegt nám og einnig er sérstaða hans fólgin í því að vera í nánum tengslum við atvinnulífið og hafa boðið uppá atvinnulífstengd námskeið.