Skilgreining á einelti og meðferð eineltismála

Einelti er endurtekið áreiti eða ofbeldi, líkamlegt eða andlegt, sem stýrt er af einstaklingi eða hópi og beinist að einstaklingi sem ekki tekst að verja sig. Líkamlegt einelti getur verið barsmíðar, spörk, hrindingar eða meiðingar af öðru tagi. Andlegt einelti felst í stríðni, útilokun, hótunum eða höfnun. Einnig getur einelti átt sér stað í gegnum síma t.d. með sms skilaboðum og/eða á netinu t.d. á fésbók.

Skólayfirvöld, starfsfólk og nemendaráð VA lýsa því yfir, að hvorki einelti né annað ofbeldi sé liðið í skólanum. Hlutverk allra starfsmanna skólans er að vera vakandi fyrir líðan og velferð nemenda og koma vitneskju um einelti sem allra fyrst á framfæri við rétta aðila. Á sama hátt er mikilvægt að nemendur skólans skipti sér af, komi til hjálpar og láti vita ef þeir verða vitni að einelti.

Fyrirbyggjandi aðgerðir

 • Skólareglur innihalda ákvæði um góð samskipti og að einelti og ofbeldi leyfist ekki.
 • Kanna skal líðan nemenda reglulega. Lagðar eru fyrir nokkrar spurningar um líðan nemenda skólans annað hvort í sérstakri könnun eða um leið og annað er kannað t.d. félagslíf. Þessa könnun framkvæmir gæðanefnd.
 • Ef námsráðgjafi fær upplýsingar um að nýnemi hafi verið lagður í einelti í grunnskóla sér hann um að fylgst sé með líðan nemandans í VA.  
 • Einelti er rætt í nokkrum fögum, hér eru nokkur dæmi:
  • Í íslensku á fyrsta ári er lesin saga sem fjallar um einelti og málin eru rædd í tíma.
  • Í sálfræði er rætt um einelti og áhrif þess á gerendur
  • Í lífsleikni er einelti skoðað út frá fórnarlambi, geranda og áhorfanda og rætt um hvað er hægt að gera til að stöðva einelti. Nemendur eru fræddir um eineltisáætlun skólans og það ferli sem mál fara í.
  • Í ART tímum er stöðug umræðu um félagsfærni og almennt siðferði í samskiptum.
  • Skólastjórn og/eða námsráðgjafi bera ábyrgð á að upplýsingar um öll eineltis- og ofbeldismál sem upp koma verði skráð í lokaðan gagnagrunn skólans. Þar komi fram lýsing á hvernig tekið var á málinu, hvernig það leystist og hverjir hafi fylgt málinu eftir.

Hvernig tekið er á einelti

Eineltismál eru mjög ólík innbyrðis og það sama má segja um ofbeldi sem upp getur komið í skólum. Þess vegna er ekki hægt að setja fram reglur um eitt ákveðið vinnuferli sem alltaf eigi að fara eftir. Eineltisteymi skólans tekur á málum sem upp koma varðandi einelti.

Eineltisteymi VA skipa; skólameistari, og námsráðgjafi. Umsjónarkennari nemandans sem lagður er í einelti og umsjónarkennari geranda eru kallaðir inn í teymið þegar við á. Þá er samráð haft í einstaka tilfellum við kennara í ART áfanganum.  Ef eineltið á sér stað í tíma er viðkomandi kennari einnig  kallaður til og settur inn í málið. Þeir sem taka á málum verða að vega og meta hverju sinni hvaða leið sé líklegust til árangurs.  Nokkrar meginreglur eiga alltaf við:

 • Ef grunur leikur um einelti (eða annað ofbeldi) skal láta umsjónarkennara nemenda vita. Umsjónarkennari kannar málið og hefur samráð við skólameistara og námsráðgjafa.
 • Nemandi sem upplifir annan eða sjálfan sig lagðan í einelti skal snúa sér til skólameistara eða námsráðgjafa
 • Umsjónarkennari lætur foreldra geranda og þolenda vita ef þeir eru ekki orðnir 18 ára.
 • Tryggja þarf öryggi þolanda og afla góðra upplýsinga um málið eins fljótt og hægt er. Ekki á að spyrja þolanda í viðurvist annarra nemenda og varast skal að gefa gerendum kost á að hópa sig saman í varnarstöðu.
 • Námsráðgjafi og/eða umsjónarkennari talar við þolandann, sýnir honum stuðning og hittir hann reglulega ef þörf er á. Um getur verið að ræða sjálfsstyrkingu og unnið með kvíða, einnig gæti komið upp sú staða að unnið verði með félagsfærni. Þetta er gert í samráði við foreldra ef viðkomandi er ekki orðinn 18 ára.
 • Skólameistari, námsráðgjafi eða umsjónarkennari  talar við gerandann allt eftir  stöðu og alvarleika málsins. Árangursríkast er að tala við gerendur einn og einn í senn í upphafi en síðar hópinn ef margir eru saman í eineltinu.
 • Þegar talað er við gerendur á að gera þeim ljóst að þeir verði að hætta eineltinu. Sá sem ræðir við gerendur á að sýna þeim kurteisi, varast skammir en ganga út frá því að þeir bæti ráð sitt.
 • Ef foreldrar gerenda eru kallaðir til á að leggja áherslu á að ná góðu samstarfi við þá. Gert er ráð fyrir að foreldrarnir vilji ekki að barn þeirra leggi aðra í einelti. Foreldrar eiga oft erfitt með að trúa að barn þeirra hagi sér þannig.
 • Þegar nemandi leitar hjálpar vegna eineltis eða ofbeldis verður að koma í veg fyrir að hann verði fyrir hefndaraðgerðum frá gerendum, með því að fylgjast með honum jafnt innan sem utan kennslustunda.
 • Fylgjast þarf með málsaðilum eftir að unnið hefur verið að lausn eineltismála til þess að sama sagan endurtaki sig ekki, kennarar nemandans eru látnir vita og beðnir um að fylgjast með honum. 
 • Ef einelti er illviðráðanlegt, þ.e. ef gerandi bætir ekki ráð sitt, getur verið nauðsynlegt að vísa geranda tímabundið úr skóla. Ef ekkert annað dugar er einelti kært til barnaverndaryfirvalda og lögreglu. Eineltisteymið tekur ákvörðun um slíkt ef eineltið er á alvarlegu stigi.
Einelti