Menntasjóður námsmanna

Menntasjóður námsmanna

Hlutverk Menntasjóðs námsmanna er að tryggja þeim sem falla undir lögin um sjóðinn tækifæri til náms án tillits til efnahags.

Sjóðurinn veitir lán til framhaldsnáms við skóla sem gera sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og gerðar eru til háskólanáms hérlendis.

Menntasjóðnum er einnig heimilt að veita öðrum námsmönnum námslán enda stundi þeir lánshæft aðfaranám eða starfsnám. Stjórn sjóðsins setur nánari reglur um til hvaða aðfaranáms og starfsnáms skuli lánað.

Sá hluti Menntasjóðsins sem helst snýr að nemendum á framhaldsskólastigi eru jöfnunarstyrkir og námslán þegar stundað er iðn- og starfsnám sem metið er lánshæft af sjóðnum.

Jöfnunarstyrkur (dreifbýlisstyrkur) er styrkur fyrir nemendur sem stunda nám á framhaldsskólastigi fjarri lögheimili og fjölskyldu. Lögheimili má ekki vera í nágrenni við skóla en nánari skýringar er að finna á heimasíðu Menntasjóðsins. Námið verður að vera að lágmarki eins árs skipulagt nám við skóla sem fellur undir lög um framhaldsskóla/menntaskóla.

Lánshæft iðn- og starfsnám

Starfsnám (iðnnám) og viðbótarnám við framhaldsskóla á Íslandi er lánshæft. Skilyrði er að námið hafi hlotið staðfestingu ráðherra samkvæmt lögum nr. 92/2008 og uppfylli að auki öll eftirtalin skilyrði:

  • Námið hafi fengið samþykki frá viðkomandi starfsgreinaráði ef við á,

  • námslok séu a.m.k á þriðja hæfnisstigi,

  • sambærilegt nám sé almennt ekki í boði á háskólastigi á Íslandi.

Farið er með nemalaun eins og aðrar tekjur samkvæmt reglum sjóðsins og geta þau komið til skerðingar á námsláni fari samanlagðar tekjur yfir almennt frítekjumark.

Almennt nám í framhaldsskóla til stúdentsprófs eða sambærilegs prófs er ekki lánshæft. Hins vegar geta framhaldsskólanemar átt rétt á jöfnunarstyrk ef þeir stunda nám fjarri heimahögum.

Allar frekari upplýsingar má nálgast á heimasíðu Menntasjóðsins eða í síma 560 4000. Tölvupóstur er menntasjodur@menntasjodur.is