Nám og kennsla

Í Verkmenntaskóla Austurlands er lögð áhersla á að allir nemendur eigi kost á því að njóta góðrar menntunar og í því sambandi er mikilvægt að námsleiðir séu eins fjölbreyttar og frekast er kostur. Boðið er upp á fjölbreytta kennsluhætti og eins er námsmat fjölbreytt. Kostir upplýsingatækninnar og fjarkennslu eru nýttir eftir því sem við á og nemendur í verklegu námi eiga að fá góða þjálfun á viðkomandi sviði. Skólinn býður  nemendum upp á góðar námsaðstæður bæði hvað varðar húsnæði og kennslubúnað. Námsbrautarlýsingar fyrir þær námsbrautir sem skólinn býður upp á liggja ávallt fyrir og eins áfangalýsingar allra þeirra námsáfanga sem kenndir eru. Í áfangalýsingunum er efnisinnihaldi sérhvers námsáfanga lýst. Í upphafi hverrar annar eru  lagðar fram námsáætlanir (kennsluáætlanir) fyrir hvern áfanga sem kenndur er þar sem gerð er  grein fyrir kennsluaðferðum og námsmati. Þegar fjallað er um nám í einstökum áföngum eða á tilteknum námsbrautum gerir ný aðalnámsskrá ráð fyrir að  lögð sé áhersla á hugtökin þekkingu, leikni og hæfni. Bæði þekking og leikni tekur til þess náms sem á sér stað en hæfni felur í sér yfirsýn og getu til að hagnýta þekkinguna og leiknina miðað við aðstæður hverju sinni. 

Jöfn tækifæri og ábyrgð nemenda

                Áhersla er lögð á að nemendur fái ítarlegar upplýsingar um eðli  hvers námsáfanga og námið í heild. Þá er einnig mikilvægt að þeir venjist því að bera ábyrgð á eigin námi og taki þátt í skipulagningu þess og ákvörðunum um námshraða. Í þessu sambandi er einnig mikilvægt að nemendum séu ávallt ljósar þær kröfur sem til þeirra eru gerðar og þær námsmatsaðferðir sem notaðar eru hverju sinni. Allar upplýsingar um námsleiðir og einstaka námsáfanga eiga nemendur að fá í hendur auk þess sem þær eru birtar á heimasíðu skólans.

                Allir nemendur eiga að hafa jöfn tækifæri til góðrar menntunar og er í því sambandi lögð áhersla á að fatlaðir og langveikir nemendur eigi kost á þjónustu skólans svo og þeir sem hafa sértæka námserfiðleika. Þá skulu nemendur af erlendum uppruna sem tala íslensku sem annað mál fá þjónustu í samræmi við móttökuáætlun. Ávallt skulu nemendur hvattir til að sýna frumkvæði  og skapandi hugsun af öllu tagi er eftirsóknarverð.

                Til að koma til móts við þá nemendur sem ekki eiga kost á að sækja skólann daglega er boðið upp á fjarnám og er þá gengið frá fyrirkomulagi námsins með sérstökum samningi á milli kennara og viðkomandi nemenda.

Gæði kennslu og náms

                Skólinn leggur áherslu á að stöðugt verði leitað leiða til að bæta nám og kennslu og tryggja að námsaðstæður séu sem bestar. Í þessu sambandi er lögð áhersla á fjölbreytni og á það við um náms- og kennsluaðferðir auk námsmatsaðferða. Hvatt er til að tilraunir séu gerðar á sviði kennsluhátta og lagt mat á hvernig til tekst. Kappkostað er að brottfall nemenda úr námi verði sem minnst.

                Mikilvægt er að nemendur fái greinargóðar upplýsingar um stöðu sína í hverjum námsáfanga á meðan á kennslu stendur  og því er það algild regla að námsmat sé framkvæmt á miðri önn, svonefnt miðannarmat. Í miðannarmati er tekið tillit til ástundunar og námsárangurs.

                Skólinn hvetur kennara til endurmenntunar og er  þeim sköpuð aðstaða til að bæta sig í starfi og auka þekkingu sína á öllu er skólastarf varðar. Þá eru kennarar einnig hvattir til þátttöku í þróunarverkefnum.

                Fagleg sjónarmið eru höfð að leiðarljósi hvað varðar skipulag kennslu og stærð námshópa og eins er vilji til þess að námsframboð sé aðlagað þörfum atvinnulífs hverju sinni. Lögð er áhersla á samstarf við menntasamfélagið á Austurlandi og þá framhaldsskóla á landinu sem bjóða upp á sambærilegt nám 

Tengsl við önnur skólastig

                Skólinn mun hafa frumkvæði að samskiptum við aðliggjandi skólastig í þeim tilgangi að leggja sitt af mörkum til að stuðla að sem mestri samfellu í skólagöngu nemendanna. Rík áhersla er lögð á að kynna námsframboð skólans fyrir nemendum grunnskóla á Austurlandi og forráðamönnum þeirra. Einnig er brýnt að starfsfólk grunnskólanna  í  landshlutanum sé upplýst um eðli skólans og hlutverk.

                Þá er einnig mikilvægt að samskipti við háskóla í landinu séu góð svo áherslur í kennslu, námi og námsmati séu í samræmi við það sem þar tíðkast.         

Mat

                Til að meta stöðu einstakra þátta er varða nám og kennslu er brýnt að framkvæma eftirfarandi:

  • Fylgjast með endurmenntun og viðbótarmenntun kennara
  • Fylgjast með niðurstöðum áfangamats í lok hverrar námsannar
  • Fylgjast með þeim námsmatsaðferðum sem notaðar eru
  • Fylgjast með hlutfalli þeirra nemenda sem njóta þjónustu vegna sértækra námsörðugleika eða vegna þess að íslenska er þeirra annað mál
  • Fylgjast með gerð námsáætlana og þeim upplýsingum sem þær veita
  • Leggja mat á árangur kynninga á skólastarfinu í grunnskólum
  • Leggja mat á gæði þeirra tengsla sem skólinn hefur við háskóla
  • Fylgjast með þeim þróunarverkefnum sem starfsmenn skólans taka þátt í

Fylgjast með þróun atvinnulífs og meta hvort hún gefi tilefni til breytinga á námsframboði