Á vinnustöðum gilda ákveðnar reglur um viðveru og ástundun. Sama á við í Verkmenntaskóla Austurlands. Til þess að ná árangri í námi þurfa nemendur að sinna náminu af samviskusemi.
Vanþekking á reglum leysir nemendur ekki undan ábyrgð.
Um skólasókn
Nemendur skulu sækja allar kennslustundir og vinnustofur sem þeir eru skráðir í og mæta stundvíslega.
Nemendur bera ábyrgð á eigin skólasókn[1]. Þeir geta fylgst með stöðu sinni í Innu og bera ábyrgð á að þekkja þær reglur sem gilda um skólasókn.
Kennarar skrá mætingu nemenda í kennslustundir. Komi nemandi í kennslustund eftir að viðvera hefur verið skráð er á hans ábyrgð að óska eftir skráningu á seinkomu í stað fjarvistar við kennara. Ef nemendur vilja gera athugasemdir við fjarvistaskráninguna þá koma þeir athugasemdum til viðkomandi kennara innan viku.
Gefin er 1 eining á önn fyrir raunmætingu 90% og hærri.
[1] Fjarvistastig nemenda eru reiknuð þannig, að gefin eru 0,3 fjarvistastig fyrir að koma of seint í kennslustund en 1,0 fyrir fjarvist úr kennslustund. Nemendur fá fjarvist mæti þeir í kennslustund eftir að hún er hálfnuð. 0,3 fjarvistarstig eru gefin ef nemendur eru óvirkir í kennslustund.
Skólasóknarreglur
Nái nemandi ekki 80% raunmætingu í áfanga fær hann ekki lokamat í áfanganum. Sama mætingarkrafa gildir í vinnustofum.
Eftirfylgni er með ástundun nemenda (skólasókn og vinnuframlagi/verkefnaskilum) og nemendum ber að gefa skýringar á slakri ástundun.
Ástundun ábótavant – viðbrögð og afleiðingar
Litið er á sem svo að ástundun sé ábótavant ef raunmæting er undir 80%. Á vörðum (ljósker, viti, varða) fer stoðþjónusta skólans ásamt umsjónarkennurum yfir ástundun nemenda og ef raunmæting er undir 80% er eftirfarandi gert:
- Ástundun ábótavant á vörðu:
- Nemandi fær tölvupóst frá stjórnendum. Forsjáraðilar nemenda undir 18 ára fá afrit.
- Ástundun áfram ábótavant á næstu vörðu á eftir:
- Nemandi fær skriflega áminningu frá skólameistara og veittir þrír dagar til þess að koma með andmæli. Forsjáraðilar nemenda undir 18 ára fá afrit. Ef engin andmæli berast er litið svo á að nemandi hafi sagt sig úr viðkomandi áfanga/áföngum og honum tilkynnt um það. Ef um vinnustofur er að ræða mun nemandinn þurfa að segja sig úr einum áfanga.
Ef nemendur eru ósáttir við meðferð sinna mála geta þeir vísað málinu til skólaráðs og sótt skólann þar til niðurstaða skólaráðs er fengin.
Annað
Endanleg brottvikning úr einstökum áföngum eða úr skóla vegna lélegrar skólasóknar er á ábyrgð skólameistara.
Skólameistari einn getur veitt undanþágu frá þessum reglum, t.d. með því að skilyrða inntöku nemenda í skólann með námssamningum.
Skólameistari getur einnig veitt undanþágu frá skólasóknarreglum vegna félagslegra aðstæðna nemenda.
Veikindi
Almennar reglur varðandi veikindi
- Veikindi þarf að skrá fyrir kl. 12:00 á veikindadegi í Innu. Ekki er hægt að skrá veikindi aftur í tímann.
- Forsjáraðilar nemenda yngri en 18 ára skrá veikindi í INNU.
- Fjarvera vegna veikinda lækkar raunmætingu.
- Ef veikindi vara lengur en þrjá daga samfellt er tekið tillit til þessa þegar ástundun er skoðuð á vörðum.
- Ef samanlögð veikindi á einni önn fara fram yfir 7 daga ber nemanda að gera skólahjúkrunarfræðingi grein fyrir aðstæðum sínum.
Leyfi
Ætlast er til að nemendur sinni persónulegum erindum sínum utan skólatíma. En samkvæmt viðmiðum um skólasókn hafa nemendur 20% fjarvistasvigrúm til að mæta fjarveru.
Hægt er að sækja um leyfi til skólameistara vegna eftirfarandi og getur skólameistari þá veitt undanþágu frá skólasóknarreglum:
- námsferða á vegum skólans
- fjölskylduferð nemenda undir 18 ára aldri
- tiltekinna starfa á vegum NIVA
- keppnisferða á vegum skólans
- landsliðsverkefna, keppnisferðalaga eða æfingabúða ef staðfesting frá þjálfara liggur fyrir
- ófærðar
- andláts nákomins ættingja eða vinar
- veikinda barns sem nemandi á eða hefur á framfæri
- ferðar til læknis eða tannlæknis
- ökuprófa
Athugið að leyfi eru aðeins veitt frá kennslustundum en ekki frá námi.
Úrsögn úr áfanga
Frestur til að skrá sig úr áfanga eða breyta vali rennur út 3 vikum frá upphafi annar. Þurfi nemandi að segja sig úr áfanga vegna sérstakra aðstæðna eftir þann tíma, þarf beiðni að berast til náms- og starfsráðgjafa. Afstaða er tekin til beiðna á fundi stoðþjónustu VA.
Síðast uppfært 1. janúar 2026