Gæðastefna

Samkvæmt lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008 kafla VII um mat og eftirlit með gæðum eiga framhaldsskólar að meta með kerfisbundnum hætti árangur og gæði skólastarfs með virkri þátttöku starfsmanna, nemenda og foreldra eftir því sem við á. Ráðuneyti menntamála gerir áætlun til þriggja ára um kannanir og úttektir sem miða að því að veita upplýsingar um framkvæmd framhaldsskólalaga, aðalnámskrár framhaldsskóla og annarra þátta skólastarfs. Ytri úttekt á framhaldsskóla skal fara fram eigi sjaldnar en á fimm ára fresti og unnin af óháðum aðilum.

Skv. 40. grein laganna eru markmið mats og eftirlits með gæðum starfs í framhaldsskólum að:

  • veita upplýsingar um skólastarf, árangur þess og þróun til fræðsluyfirvalda, starfsfólks framhaldsskóla, viðtökuskóla, atvinnulífs, foreldra og nemenda
  • tryggja að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrár framhaldsskóla
  • auka gæði náms og skólastarfs og stuðla að umbótum
  • tryggja að réttindi nemenda séu virt og að þeir fái þá þjónustu sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum

Í Verkmenntaskóla Austurlands er áhersla lögð á samvinnu, þekkingu og árangur. Í skólastarfinu er leitast við að veita góða kennslu, auka víðsýni nemenda, hvetja til gagnrýninnar og skapandi hugsunar, efla samvinnu og tillitssemi og hvetja til virðingar fyrir umhverfi og samfélagi.

Til þess að stuðla sem best að því að markmið laga um mat og eftirlit með gæðum skólastarfs náist er unnið samkvæmt gæðakerfi í VA. Starfandi er gæðaráð og gæðastjóri sem ber ábyrgð á að meta hvort gæðamarkmiðum skólans sé náð hverju sinni og að leggja til úrbætur og fylgja þeim eftir sé þess þörf. Leiðarljós í vinnu við gæðamál í VA eru eftirfarandi spurningar:

Hvernig stöndum við okkur?

Hvernig vitum við það?

Hvað gerum við næst?

Gæðaráð

Gæðaráð samanstendur af stjórnendum, kennurum, öðrum starfsmönnum og gæðastjóra. Hlutverk gæðaráðs VA er að fylgja eftir gæðastefnu skólans.

Gæðastjóri

Við skólann starfar gæðastjóri sem sér um innleiðingu, skipulag, framkvæmd og skjalfestingu í gæðahandbók skólans og viðhald gæðakerfa skólans. Hann skipuleggur innra eftirlit og ytri úttektir og veitir upplýsingar um kerfin.

Gæðakerfi Verkmenntaskóla Austurlands

VA styðst við ISO 9001 gæðakerfi fyrir alla almenna starfsemi VA og kennslu í dagskóla. Farið hefur fram grunnfræðsla innan skólans um gæðastjórnun og gæðaeftirlit og leitast er við að tengja gæðavinnu og innra mat skólans. Órjúfanlegur hluti af gæðakerfinu er jafnlaunakerfi skólans sem byggir á staðlinum ÍST 85:2012 og tekur til allra starfsmanna skólans.

Handbækur

Innan skólans er notuð gæðahandbók sem vistuð er á rafrænu formi á innra neti skólans.