Jafnréttisstefna

Jafnréttisstefna VA

Jafnréttisstefna Verkmenntaskóla Austurlands, sem samþykkt var á starfsmannafundi 8. maí 2020 og gildir til 31.maí 2022, byggir á lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og lögum nr. 80/2019 um kynrænt sjálfræði.

Markmið jafnréttisstefnu Verkmenntaskóla Austurlands er að skapa jöfn tækifæri fyrir allt starfsfólk skólans og nemendur hans. Allir einstaklingar, nemendur og starfsfólk, skulu eiga jafna möguleika óháð aldri, búsetu, fötlun, kynjum, kynhneigðum, litarhætti, lífsskoðunum, menningu, stétt, trúarbrögðum, tungumáli, ætterni, þjóðerni og stöðu að öðru leyti. Kynin skulu njóta jafns réttar í hvívetna. Stefna skólans er að gæta fyllsta jafnréttis allra og að starfsfólk og nemendur séu metin og virt að verðleikum og á eigin forsendum. Í anda þessa leggur skólinn áherslu á eftirfarandi:  

Markmiði þessu skal náð m.a. með því að: 

  • hafa skýra og skilvirka jafnréttisáætlun
  • gæta jafnréttissjónarmiða í stefnumótun og ákvörðunum á öllum sviðum skólans
  • vinna að jöfnum áhrifum fólks af öllum kynjum í skólanum
  • vinna gegn allri mismunun á grundvelli kynja, þ.m.t. launamisrétti
  • gera fólki af öllum kynjum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf
  • efla fræðslu um jafnréttismál
  • greina tölfræðiupplýsingar eftir kynjum
  • vinna gegn kynbundnu ofbeldi, kynbundinni og kynferðislegri áreitni
  • útrýma hefðbundnum kynjaímyndum og neikvæðum staðalímyndum um hlutverk kynjanna.

Við Verkmenntaskóla Austurlands er starfandi jafnréttisnefnd og jafnréttisfulltrúi sem hafa það hlutverk að fylgjast með því að jafnréttisstefnu skólans sé fylgt.

Helstu verkefni jafnréttisnefndar og jafnréttisfulltrúa eru að:

  • endurskoða jafnréttisstefnu skólans á tveggja ára fresti
  • hafa eftirlit með að jafnréttisáætluninni sé framfylgt
  • hafa eftirlit með að lögum um jafnréttismál sé fylgt
  • birta reglulega upplýsingar um stöðu jafnréttismála í skólanum
  • vera til ráðgjafar ef upp koma ágreiningsmál er varða jafnrétti kynjanna
  • standa að fræðslu um jafnréttismál