Heimildir

Heimildir eru þær upplýsingar sem notast er við til að svara rannsóknarspurningu höfundar. Heimildir geta verið allt frá frásögnum vitna til opinberra skjala. Heimildir skiptast í frumheimildir og afleiddar heimildir, einnig oft kallaðar fyrstu og aðrar heimildir. 

Frumheimildir eru þær heimildir þar sem fyrst er gerð grein fyrir niðurstöðum rannsókna, þar sem fyrst er sagt frá, sett fram lýsing, hugmynd eða kenning eða sú heimild sem stendur næst atburði í tíma ef aðrar eldri heimildir um sama efni eru ekki til lengur. Dæmi um frumheimildir: Frásagnir sjónarvottar, skýrslur eða greinar um rannsókn. Einnig geta frumheimildir verið gögn, sendibréf, fundargerðir, vottorð, lög, tilskipanir stjórnvalda, hlutir, fornminjar, jarðlög, jurtir og veðurathuganir. 

Afleiddar heimildir (Aðrar heimildir) eru samantekt á efni frumheimilda og skýringar á þeim. Afleiddar heimildir geta staðið nálægt frumheimildum eða fjarri þeim með aðrar afleiddar heimildir sem millilið. Dæmi um afleiddar heimildir eru bækur, yfirlitsrit, tímaritsgreinar o.fl. Nemendur á framhaldsskólastigi vinna aðallega með afleiddar heimildir. Mikilvægt er því að skoða milliliði við frumheimildina svo stuðst sé við áreiðanlegar heimildir.