STÝ 302 Stýringar og rökrásir

 STR 302

Undanfari:    STR-202.
Áfangalýsing
Í áfanganum er nemendum kynntar loftstýringar, farið er yfir helstu loftmeðhöndlunartæki og virkni þeirra. Í áfanganum er fjallað um nokkrar gerðir af loftstýrieiningum,s.s. loka og strokka. Farið er yfir helstu tákn og tengimyndir sem notaðar eru í loftstýringum. Nemendur þjálfast í teikningum og tengingum á einföldum loftstýringum.
Í áfanganum verður haldið áfram með segulliðastýringar eins og gert var í áfanga STR-202 en nú með tengingum við loftstýringar, þ.e. nemendur hanni og tengi loftstýribúnað sem stjórnað er af segulliðastýringum.
Í tengslum við loftpressur verður nemendum kynnt nokkrar gerðir af ræsiaðferðum rafmótora, svo sem Y/D ræsing, Dahlander ræsing, bein ræsing, mjúkræsar ofl.
Námið byggist upp á verkefnavinnu, þar sem hvert verkefni samanstendur af útlistun þeirrar tækni sem verkefnið fjallar um, auk verklegrar æfingar þar sem nemandinn brýtur verkefnið til mergjar, tengir, prófar og mælir og tekur saman niðurstöður. Í þessum verkefnum verði einnig lögð áhersla á að nemandinn nýti sér mælitæki til að finna tengivillur og bilanir.
Nemendur nýti sér tölvutæknina við skil á verkefnum og skýrslum.
Áfangamarkmið
Nemandi
  • kynnist helstu kostum og göllum við loftstýringar
  • þekki virkni og notkun á loftpressum, loftsíum, smurtækjum, lofthylkjum og öryggislokum
  • þekki virkni og notkun á einvirkum og tvívirkum strokk
  • þekki virkni og notkun á 2/2, 3/2 og 5/2 lokum sem stýrt er handvirkt, með rafmagni, með lofti og vélrænt.
  • þekki virkni og notkun á deyfistefnu-, tvíþrýsti- og einstefnulokum
  • þekki og geti teiknað virkni- og tengimyndir og tengt eftir teikningum
  • þekki til bilanaleitar í loftstýringum
  • þekki og geti tengt segulliða- og loftstýringar saman
  • kynnist nokkrum ræsiaðferðum á rafmótorum í tengslum við loftpressur
  • þekki og geti skilið upplýsingar af skiltum rafmótora
Efnisatriði:
  • Almennt um loft sem stýrimiðill. Loftmeðhöndlunartæki, þ.e. loftpressur, loftsíur, smurtæki, lofthylki, og öryggislokar. Strokkar, afl- og stýriloftlokar
  • Segulliðar, þrýstirofar og annar búnaður úr áföngum STR-102 og STR-202
  • Notkun á teikniforritum fyrir stýrirásarteikningar, stýri- og kraftrásir
  • Verkefni verði bæði bókleg og verkleg þar sem farið er í teikningar, tákn, virkni búnaðar og tengiæfingar. Einnig verði æfingar í notkun mæla við bilanaleit
Námsmat:     
            Verkefnaskil og próf
            Lágmarkseinkunn í áfanganum er 5,0