Milljarður rís föstudaginn 16. mars

Þá er komið að árlega viðburðinum okkar – Milljarður rís í Neskaupstað, barátta gegn kynbundnu ofbeldi. Hann verður haldinn í hádeginu föstudaginn 16. mars og eins og áður í íþróttahúsinu. Í ár er viðburðurinn (á Íslandi) tileinkaður konum af erlendum uppruna sem hafa þurft að þola margþætta mismunun og ofbeldi. Engin skylda að dansa. Það má líka bara mæta og horfa á 😊

Viðburðurinn er opinn öllum og ekki bundinn við skólann okkar. Að dansinum loknum fáum við góða gesti frá Reykjavík sem ætla að halda áhugaverða fyrirlestra fyrir nemendur í VA en það eru þau Eydís Blöndal og Þorsteinn V. Einarsson sem koma og ræða um #metoo byltinguna, femínisma o.fl.  Neðar í skjalinu má finna nánari upplýsingar um fyrirlestrana þeirra. 

Skipulag fyrir kennara og nemendur á föstudaginn er svona:

11:45 matarhlé (tími fyrir hádegi styttur)

12:20 Kennarar taka mætingu í tímum hjá sér og fara með hópinn í íþróttahús

12:30-13:00 Dansbylting í íþróttahúsinu

13:15 Fyrirlestrar fyrir nemendur VA – kynjajafnrétti,  #metoo byltingin o.fl. 

           Eydís Blöndal talar við stelpurnar – Stofa 8

           Þorsteinn V. Einarsson talar við strákana – Stofa 1

14:45-15:45 – Venjuleg stundaskrá

Eydís og Þorsteinn  eru virk í jafnréttismálum og hefur Þorsteinn til að mynda unnið með unglingum í félagsmiðstöðvum og barist fyrir réttindum þeirra. Eydís er virk á samfélagsmiðlum og hefur einnig gefið út ljóðabækur þar sem hún talar hreint og hispurslaust út um kynbundið ofbeldi á sínu máli en ekki eins og þöggunarsamfélagið vill að hún tali um það.

Þorsteinn V. Einarsson 

Titill:  Er karlmennskan eitruð?  #karlmennskan 
Lýsing: Farið verður yfir hugmyndir okkar um karlmennskuna, gerðar tilraunir til að skilgreina hana og mörk hennar. Rýnt í eitraða orðræðu úr metoo byltingunni og lagðar til nokkrar leiðir til að vinna gegn sexisma. Vangaveltur og pælingar sem sérstaklega eru ætlaðar karlmönnum enda sýna rannsóknir að þeir verða stöðugt óöruggari um til hvers er ætlast af þeim í þessu samfélagi.

Eydís Blöndal

Titill: Femínismi – hvað er svona merkilegt við það? Druslur, peningar og valdaójafnvægi. 

Nálgast verður femínsma; markmið hans og tilgang, út frá mörgum ólíkum sjónarhornum. Farið verður yfir söguna – það sem femínistar hafa afrekað hingað til, og svo veltum við því fyrir okkur hver næstu verkefnin eru. Skoðað verður hvernig  fordómar og forréttindi móta hugmyndir okkar og athafnir, oftast ómeðvitað, og hvaða vandamál það getur skapað, til dæmis hvernig staðalímyndir kynjanna hafa áhrif á okkur. Kynfrelsi og drusluskömm verða einnig til umfjöllunar, og spyrjum við okkur spurninga á borð við hvort stelpur hafi sama frelsi til að stunda kynlíf og strákar, hvaða áhrif klám hefur á kynlífið okkar og kröfur sem settar eru á konur (og karla!) sem kynverur. #metoo byltingin verður að sjálfsögðu tekin fyrir, og þá verður hún sérstaklega skoðuð út frá valdaójafnvæginu sem skapast í hinu kynjaða kerfi, og hvaða afleiðingar það hefur haft.