Opnir dagar / fardagar 7. - 9. mars

Opnir dagar í Verkmenntaskóla Austurlands 07.-09. mars

Þátttaka í opnum dögum er valfrjáls fyrir nemendur. Þeir nemendur sem taka að fullu þátt í opnu dögunum (dagskrá í 3 daga) fá eina einingu fyrir þátttökuna. Mikilvægt er að nemendur sem skrá sig séu ákveðnir í að taka þátt. 

Skráning hér

Nemendur geta einnig valið að taka þátt í hópum í öðrum skólum - fardagar (sjá neðst)

 

Morfís

Kynning og æfing í anda Morfís keppninnar. Morfís er ræðukeppni framhaldsskólanna og hefur verið haldin síðan 1984.  Í áfanganum verður lögð áherslu á mælsku, rökræður og samvinnu.  Nemendur undirbúa Morfís ræðukeppni og framkvæma hana. Þátttakendur áfangans sjá alfarið um framkvæmd keppnanna svo sem með uppsetningu, dómgæslu, tímavörslu o.fl.

Kennarar: Ágúst Ingi Ágústsson og Elvar Jónsson

 

Lífsstíll og matreiðsla í öðrum löndum

Óformlegar umræður um mismunandi matarmenningu þjóða s.s. Breta, Indverja, Marokkó. Einnig verður rætt um mismunandi lífsstíl fólks sem snýr að mat. Hver dagur verður tileinkaður matarmenningu þjóða og/eða lífsstíl. Eldaðar verða máltíðir sem tengjast mismunandi löndum t.d. Bretlandi, Indlandi, Marokkó og einnig máltíðir sem tengjast mismunandi matarlífsstíl (grænmetis, vegan, paleo). Í hádegisverðinum má hver þáttakandi bjóða með sér gesti.

Kennari: Freyja Theresa Ásgeirsson (Tess)

Hámarksfjöldi er 9

 

Hreyfing og lífsstíll

Námskeiðið er ætlað þeim sem hafa mikinn áhuga á hreyfingu og lífsstíl eða vilja efla þann þátt. Markmiðið er að nemendur finni ánægjuna sem fylgir því að hreyfa sig og stunda heilbrigðan lífsstíl. Hreyfingin er fjölbreytt þar sem tekið verður fyrir m.a. sund, styrktarþjálfun, stöðvaþjálfun, tabata, þolþjálfun, ganga, sund, almennar íþróttir og jóga. Einnig verður farið í slökun. Þá verða líka stuttir fyrirlestrar þar sem nemendur fræðast um heilbrigðan lífsstíl.

Kennari: Salóme Rut Harðardóttir Íþrótta- og heilsufræðingur

 

Ofurhetjukvikmyndir: heilalaus froða eða endurspeglun á samfélaginu?  

Í þessu námskeiði munum við horfa á 5-6 ofurhetjumyndir og velta fyrir okkur hvort hægt sé að finna tilgang með myndunum, t.d. pólitíska eða feminíska ádeilu, dæmi um stéttaskiptingu, fordóma og fleira. Við munum einnig velta fyrir okkur mismunandi tegundum ofurhetja. Eru þær allar góðar og lausar við bresti eða eru þær ofur-mannlegar eins og við hin? 

Kennari: Birta Sæmundsdóttir

 

Fab Lab smiðja

Kynning á Fab Lab – tækin, forritin og hugmyndafræðin. Kennd verður undirstaða í Inkscape og límmiði hannaður úr ljósmynd. Nemendur fá einnig kennslu í Press fit hönnun (þar sem allt smellpassar saman) og vinna verkefni í því.

Nemendur þurfa að koma með flík eða tau (sem þolir vel straujárnshita) fyrir límmiðagerðina.

Hámarksfjöldi þátttakenda: 10

Kennari: Lilja Guðný Jóhannesdóttir

 

Endurnýting á gömlum fötum eða gera við þau nýju

Nemendur sauma flíkur, töskur, svuntur, grifflur eða annað sem þeir vilja gera úr gömlum fötum. Einnig hafa nemendur kost á því að gera við sinn eigin fatnað, t.d. setja rennilás á buxur, falda buxur eða gera við saumsprettur.

Nemendur þurfa að koma með flíkur sem þeir geta notað í saumaskapinn.

Hámarksfjöldi þátttakenda: 7 - 8

Kennari: Anna Bjarnadóttir

 

Tónlist

Í tónlistarhópnum er markmiðið að stofna hljómsveitir og spila og hlusta á tónlist.  Þáttakendur þurfa að hafa smá kunnáttu á hljóðfæri eða hafa áhuga á að syngja með hljómsveit.  

VIð æfum upp töff lög, semjum og höldum tónleika á föstudeginum.

Kennari: Jón Hilmar Kárason

 

Fardagar

Nemendum VA býðst að taka þátt í fardögum ýmissa samstarfsskóla VA á opnum dögum. Námskeiðin er hægt að skoða með því á ýta á nafn skólanna. Nemendur þurfa sjálfir að koma sér á staðinn og í nokkrum skólum er heimavist sem nemendur geta fengið að gista í.

Frekari upplýsingar um og skráning í fardagana eru hjá Bobbu áfangastjóra (bobba@va.is )

Framhaldsskólinn í Austur – Skaftafellssýslu (FAS)

Menntaskólinn á Egilsstöðum (ME)

Fjölbrautarskóli Norðurlands – Vestra (FNV, Sauðárkrókur)

Framhaldsskólinn á Laugum

Framhaldsskólinn á Húsavík

Menntaskólinn á Tröllaskaga (MTR, Ólafsfjörður)

  • Íþróttir, hreyfing og útivist (5 dagar, 2 einingar)
  • Forritun, Raspberry Pi, spilakassi (5 dagar, 2 einingar)
  • Framreiðsla (þjónusta á veitingastað) (5 dagar, 2 einingar)