VA leggur metnað í forvarnarstarf sitt

Við Verkmenntaskóla Austurlands starfar forvarnarfulltrúi og forvarnarteymi. Í teyminu eru auk forvarnarfulltrúans, námsráðgjafi, skólahjúkrunarfræðingur, annað áhugasamt starfsfólk, nemendur og foreldrar auk kennara sem starfa að forvörnum og heilsueflingu í Nesskóla. Teymið hefur starfað í 7 ár af miklum áhuga og dugnaði og náð góðum árangri sem sjá má í könnunum en einnig á breyttum viðhorfum, menningu, skólabragi og félagslífi.

Stjórnendur skólans hafa alltaf stutt vel við bakið á forvarnarteyminu og það sama má segja um fyrirtæki í Fjarðabyggð. Sem dæmi má nefna Síldarvinnsluna sem hefur árlega veitt skólanum, nemendafélaginu eða Edrúfélaginu styrki, gjarnan í formi vinninga. SÚN hefur einnig reynst ómetanlegur bakhjarl og gerði á síðasta forvarnarmálþingi skólans þriggja ára samning við forvarnarteymið um fastar styrkgreiðslur næstu þrjú árin. Að lokum fékk Foreldrafélag skólans styrk á dögunum frá Velferðarráðuneytinu vegna forvarnamálþings sem haldið er árlega.

Í skýrslu sem skólinn fékk frá Rannsóknum og greiningu nýlega komu fram niðurstöður úr lýðheilsukönnun um hegðun og líðan ungs fólks sem lögð var fyrir alla dagskólanema á framhaldsskólaaldri fyrr í vetur. Niðurstöðurnar notar skólinn og forvarnarteymið til að skipuleggja fræðslu, þjónustu og annað á sviði forvarna. Í skýrslunni kemur m.a. fram að 19% nemenda VA hafa orðið ölvaðir síðastliðna 30 daga en það er lægsta hlutfall allra framhaldsskóla á Íslandi. Neysla kannabisefna var 11% sem er sjöundi besti árangur skóla á Íslandi (af 31 framhaldsskólum á Íslandi). Markmið teymisins er að sjálfsögðu að lækka allar þessar tölur ennþá meira og mun starfið næstu misserin taka mið af því.

Teymið hefur haldið árleg forvarnarmálþing í 7 ár í samvinnu við foreldrafélag Nesskóla og síðustu árin fjölskyldusvið Fjarðabyggðar. Málþingin hafa verið vel sótt og eru öllum opin. VA hefur tekið þátt í verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli og fagnaði því tækifærinu að geta tekið þátt í að gera Fjarðabyggð að heilsueflandi samfélagi en hluti forvarnarteymisins á sæti í stýrihópi þess verkefnis. Samvinna, kraftur og áhugi einkenna forvarnir íbúa Fjarðabyggðar sem láta hvorki fjarlægðir, fámenni né fjárskort stoppa sig í að gera gott samfélag betra.