Verðkönnun vegna veitinga- og matsölu í Verkmenntaskóla Austurlands

Verkmenntaskóla Austurlands (VA) mun í ágúst taka í notkun nýtt mötuneyti í aðalbyggingu skólans. Það er opið öllum nemendum og starfsfólki skólans, alls um 140 aðilum, á virkum dögum á starfstíma skólans. Skólahald er frá 8:30 til 16:00 á þeim tíma skal boðið upp á hádegismat, bjóðanda er frjálst að útfæra opnunartíma mötuneytis að öðru leiti og bjóða upp á aðrar vörur sem samræmast þeim kröfum sem greint er frá hér neðar.

Starfstími skólans er frá 18. ágúst til 31. maí og eru nemendadagar 180 á þessu tímabili. Nánari starfstími er ákveðinn í upphafi annar samkvæmt skóladagatali. Á námsmatsdögum er má búast við minni aðsókn í mötuneytið.

Almenn markmið mötuneytis VA

  • Að matur sé hollur og næringarríkur og henti ungmennum og fullorðnum
  • Að matur sé bragðgóður og búinn til úr gæða hráefni
  • Að nemendur og starfsfólk borði hollan og góðan mat
  • Að kynna fjölbreyttan mat/matargerð fyrir nemendum og starfsfólki
  • Að bjóða upp á mat á sanngjörnu verði

Í VA er unnið eftir markmiðum Heilsueflandi framhaldsskóla sem og Grænum skrefum í ríkisrekstri.

VA leggur til mötuneyti, þ.m.t. húsnæði, tæki og tilheyrandi aðstöðu sem og rekstur og viðhald sem því tengist. Einungis er um að ræða afgreiðslu eldhús svo að koma þarf með mat tilbúinn á staðinn. Matur skal eldaður í viðurkenndu eldhúsi. Bjóðandi sér um rekstur sjálfsala ef það á við.

Bjóðandi sér um matseld og ber fram matinn. Hann sér einnig um þrif í eldhúsi, uppþvott, flokkun og losun sorps sem og annan frágang í mötuneyti. Allt sorp í mötuneyti skal flokkað samkvæmt viðmiðum Fjarðabyggðar. Bjóðandi kemur öllu sorpi frá mötuneyti í þá gáma sem eru við skólann. Bjóðandi sér um þrif á borðum í matsal.

VA er Grænfánaskóli og skal bjóðandi því eingöngu notast við umhverfisvæn ræstiefni.

Verðskrá skal birt á heimasíðu VA frá 1. ágúst fyrir komandi haustönn og frá 15. desember fyrir komandi vorönn. Einnig skal birta á heimasíðu skólans matseðil hverrar viku. Matseðil vikunnar skal birta eigi síðar en á mánudagsmorgni. Bjóðandi skal leggja fram 6 vikna matseðil með tilboði sínu.

Bjóðandi sér einnig um mötuneyti fyrir starfsmenn en VA niðurgreiðir mat til starfsmanna.

Samningstími fylgir skólaári hverju sinni.

Í einstaka tilfellum, geta verið 2 – 3 dagar á önn þegar sérstakar uppákomur eru í skólanum svo sem nýnemadagur eða þemadagar eða vegna sérstakra viðburða á vegum skólans eða nemendafélagsins, býður VA nemendum upp á hádegisverð en slíkt skal alltaf ákveðið með góðum fyrirvara.

Bjóðandi leggur til sjóðsvél, posa, tölvu og önnur tæki sem tilheyra afgreiðslunni.

Bjóðandi ber ábyrgð á að kaupa allar skyldutryggingar sem lög og reglugerðir kveða á um vegna reksturs mötuneytis og starfsfólks þess.

Bjóðanda er óheimilt að fela öðrum rekstur mötuneytis VA eða veita öðrum aðgang að rekstrinum.

Bjóðandi skal hafa sjálfur, eða tilgreint starfsfólk, þekkingu, reynslu og leyfi sem nauðsynleg eru til að sinna þeim mötuneytisrekstrisem hér um ræðir.

Matseðlar skulu taka mið af ráðleggingum Landlæknisembættis um samsetningu matseðla fyrir hópa og um heilsueflandi framhaldsskóla. Máltíðir skulu ekki innihalda MSG.

Matseðlar skulu vera þannig fram settir að auðvelt sé að átta sig á matreiðsluaðferð og innihaldi. Allt meðlæti og matreiðsluaðferð þeirra skal tilgreint í matseðli.

Hafi bjóðandi áður unnið svipuð verkefni og ekki rækt samningsskyldur sínar, áskilur verkkaupa sér rétt til að semja ekki við slíkan bjóðanda.

Bjóðandi skal ábyrgjast þagnarskyldu starfsfólks og uppfylla allar opinberar kröfur um faglega þjónustu, rekstur og eftirlit.

VA leggur áherslu á traust, þjónustulund og góð samskipti á milli bjóðanda og nemenda og starfsfólks skólans. Gildi skólans eru: samvinna – þekking – árangur.

Tilboðið skal taka mið af ofangreindum atriðum. Í tilboði skal koma fram verð á stakri máltíð í hádegi, annarkort sem og klippikorta.

Annarkort er áskrift fyrir nemendur að hádegisverði alla kennsludaga annarinnar (græna daga á skóladagatali). Einnig skal vera hægt að vera skráð í hádegisverð ákveðna vikudaga.

Bjóðandi skal skila inn tillögum að opnunartíma mötuneytis og hugmyndum aðöðrum matvörum sem seldar verða á opnunartíma mötuneytis. Öll slík sala þarf að vera á sanngjörnu verði gagnvart nemendum og samræmast markmiðum heilsueflandi framhaldsskóla og grænna skrefa í ríkisrekstri.

Samið verður til eins árs með möguleika á framlengingu til eins árs, samningstími er frá ágúst 2022. Samningurinn er uppsegjanlegur af beggja hálfu með fjögurra (4) mánaða fyrirvara hvenær sem er á samningstímanum.

Bjóðandi getur fengið að kynna sér aðstæður í VA með því að hafa samband við skólameistara í netfangið haflidi@va.is

Bjóðandi skal skila inn tilboði fyrir kl. 12:00 þann 6. júlí 2022. Tilboði ásamt fylgigögnum er skilað til skólameistara á tölvutæku formi á netfangið haflidi@va.is

Áskilinn er réttur til að taka hvaða tilboði sem er eða hafna öllum.

 

Hafliði Hinriksson

Skólameistari VA

haflidi@va.is

Viðauki 1 - Reglur varðandi þjónustusamninga

Ef viðmiðunarfjárhæð vegna innkaupa á opinberum þjónustusamningum um félagsþjónustu eða aðra sértæka þjónustu samkvæmt VIII. kafla um opinber innkaup, sem gerðir eru af opinberum aðilum nær ekki 97.575.000,- kr. á samningstímanum er ekki skylt að fara í útboð. Þá gildir 24. gr. Innkaup undir innlendum viðmiðunarfjárhæðum.

Við innkaup undir þeim viðmiðunarfjárhæðum sem tilgreindar eru í 1. mgr.23. gr. skal kaupandi ávallt gæta hagkvæmni og gera samanburð meðal sem flestra fyrirtækja. Slíkur samanburður skal jafnan gerður með rafrænum aðferðum. Við þessi innkaup skal gæta að samkeppni og virða jafnræðisreglu 15. gr., svo og ákvæði 49. gr. um tæknilýsingar. Val á verksala fer fram eftir 94. gr.

Meginreglur um val tilboða.

Við val á tilboði skal kaupandi gæta að meginreglum um innkaup skv. 15. gr. Kaupanda er ávallt heimilt að taka tillit til sérstakra eiginleika þjónustunnar og leggja þá eiginleika til grundvallar við val tilboða. Íþeim tilgangi getur hann við samningsgerðina tekið m.a. tillit til nauðsynlegra gæðaþjónustu, hagkvæmni, nýsköpunar, sérþarfa mismunandi flokka notenda þjónustunnar og aðkomu og valdeflingar notenda. Einnig er kaupanda frjálst að velja þjónustuveitanda á grundvelli þess tilboðs sem felur í sér besta hlutfall milli verðs og gæða að teknu tilliti til gæða- og sjálfbærniviðmiða fyrir félagsþjónustu.

Viðauki 2 - Listi yfir helstu tæki og áhöld sem eru í eldhúsi mötuneytis

  • Uppþvottavél og grindur
  • Leirtau og hnífapör
  • Gufusteikingarofn
  • Háfur yfir eldunartækjum
  • Þriggja hólfa hitaborð
  • Hilluvagn
  • Vatnsvél
  • kæliskápur
  • Kaffivél
  • Skurðarbretti
  • Hnífar

 

Viðauki 3 - Helstu kröfur vegna grænna skrefa 

  • Við höfum alltaf val um grænkerarétt sem aðalrétt
  • Á matseðli hvers dags er að minnsta kosti ein lífrænt vottuð matvara í boði og það tilgreint sérstaklega á matseðli
  • Olíu og fitu safnað sér og komið í viðeigandi förgun.
  • Steikingarolía skal ekki innihalda pálmaolíu.
  • Mötuneytisþjónusta skal hafa kynnt sér leiðbeiningar Umhverfisstofnunar um umhverfisvænan eldhúsrekstur.
  • Auka hlutfall grænmetis og plöntupróteina í kjötréttum.
  • Velja skal umhverfisvænni próteingjafa (s.s. baunir, belgjurtir, hnetur, egg, fisk, kjúkling, ost, innmat) frekar heldur en rautt kjöt.