
Hlutverk framhaldsskóla er meðal annars að skapa nemendum sínum heilsueflandi umhverfi. Samvinna milli starfsfólks, nemenda, foreldra og grenndarsamfélagsins er
öflug leið til að hafa jákvæð áhrif á umhverfi ungmennanna í samfélaginu. Rannsóknir hafa sýnt að heilsueflandi
umhverfi bætir líðan nemenda og stuðlar að betri námsárangri.
Verkmenntaskóli Austurlands tekur þátt í verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli sem er samstarfsverkefni Lýðheilsustöðvar,
Heilbrigðisráðuneytis, Mennta- og menningamálaráðuneytis og Samtaka framhaldsskólanema. Markmið verkefnisins er að stuðla að velferð og
góðri heilsu nemenda en rannsóknir hafa sýnt að heilsueflandi umhverfi bætir líðan nemenda og stuðlar að betri námsárangri.
Undirbúningur verkefnisins hófst vorið 2010 og hóf skólinn að innleiða hugmyndafræðina strax á haustönn 2010. Verkefninu var svo formlega
hleypt af stokkunum með setningarhátíð í október 2011.
Í verkefninu er unnið með fjögur svið: Næringu, hreyfingu, lífsstíl og geðrækt. Einn málaflokkur í brennidepli á hverju
ári og mjög sýnilegur í skólastarfinu en vinna á öllum sviðum alltaf í gangi. Á þennan hátt fær nemandi
haldbæra þekkingu á hollum lífsháttum og kynnst öllum málaflokkum þegar hann útskrifast að fjórum árum liðnum.
Auk stýrihóps, sem hefur yfirumsjón með verkefninu, starfar hópur fyrir hvern málaflokk. Í hópunum eru fulltrúar nemenda, foreldra,
starfsfólks og fulltrúar úr grenndarsamfélaginu. Áhugasamir einstaklingar sem hafa áhuga á því að taka þátt í
starfinu með skólanum geta haft samband við forvarnarfulltrúa.