Góðir gestir

Síðastliðinn þriðjudag, þann 5. september fékk skólinn góða gesti í heimsókn en þá kom Gerður G. Óskarsdóttir í heimsókn ásamt fjölskyldu sinni. Gerður var skólastjóri Gagnfræðaskólans í Neskaupstað frá árinu 1974 og skólastjóri Framhaldsskólans í Neskaupstað frá 1982-1983. Gagnfræðaskólinn og Iðnskóli Austurlands sameinuðust í Framhaldsskólann árið 1981 sem síðar varð að Verkmenntaskóla Austurlands árið 1986. Alla starfsævi sína hefur Gerður helgað menntamálum og hefur haft mikil áhrif á menntun á Íslandi síðustu áratugi. Þennan dag fagnaði Gerður áttræðisafmæli sínu og vildi af því tilefni heimsækja gamla skólann sinn. Eydís skólameistari tók á móti gestunum og fór með þau um skólahúsnæðið.

Þar rifjaði Gerður upp ýmis atriði frá árum sínum við skólann. Eydís færði Gerði að lokum gjöf frá skólanum en það var viðarbretti sem framleitt var í tréiðndeild skólans með áfræstu merki skólans.

Við óskum Gerði innilega til hamingju með stórafmælið og þökkum henni og fjölskyldu hennar fyrir komuna!