Líður fólki vel í kringum mig?

Fimmtudaginn 5. október næstkomandi verður árlegt forvarnarmálþing Verkmenntaskóla Austurlands haldið. Málþingin hafa verið styrkt af SÚN og eru í samvinnu við Fjarðabyggð, Nesskóla og foreldrafélög beggja skóla.

Málþingið er tvískipt. Annars vegar er fræðsla fyrir nemendur Verkmenntaskólans og 10. bekkinga í Fjarðabyggð sem haldið er um morguninn og hins vegar fræðsla fyrir almenning sem haldið er um kvöldið 19:30-21:30 í Egilsbúð, Neskaupstað og er opið öllum.

Yfirskriftin í ár er „Líður fólki vel í kringum mig?“ Fyrirlesarar eru þau Þorsteinn V. Einarsson frá Karlmennskunni og Benedikta Sörensen frá Ofbeldisvarnarskólanum. Þau eru bæði þrautreyndir fyrirlesarar og því má búast við góðri kvöldstund og líflegum umræðum.

Forvarnarteymi VA hefur staðið fyrir árlegum málþingum fyrir nemendur og almenning í rúmlega 10 ár og hafa þau verið vel sótt. Markmiðið með málþingunum er að vinna að bættu samfélagi og lífsgæðum allra og endurspegla þemu þeirra það.

Í forvarnarteymi skólans eru, auk forvarnarfulltrúa, fulltrúar frá Fjarðabyggð, Nesskóla, foreldrafélögum skólanna, nemenda VA og starfsmanna VA. Verkefni teymisins eru fjölbreytt en málþingin ávallt hápunktur vetrarins. SÚN hefur gert styrktarsamninga við teymið og þannig gert því kleift að bjóða upp á vandaða fyrirlesara.