Vikulokin

Kæru nemendur

Nú er annarri kennsluviku í fjarumhverfi Bláa hnattarins að ljúka.

Óhætt er að segja að nemendur okkar og kennarar hafi farið á kostum og séu búnir að ná góðum tökum á þessu nýja námsumhverfi. Vel gert þið öll, þið eruð frábær!

Á upplýsingafundi almannavarna í dag nefndi Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, að samkomubannið sem er í gildi fram yfir páskaleyfi gæti varað lengur en upphaflega var gefið út. Ef af verði muni það skýrast á næstu dögum.

Komi til þess að skólalokun lengist verðum við í VA tilbúin og munum þá upplýsa nemendur um hvernig við sjáum skólalok fyrir okkur. Við erum vel undirbúin og saman getum við tekist á við það sem koma skal. Eitt skref í einu, smám saman komumst við gegnum þetta.

Nemendur okkar viljum við hvetja til dáða, ekki láta deigan síga! Ef þörf krefur þá getum við tekist á við lengri skólalokun en samt fundið leiðir til að ljúka önninni.

Við erum hér til staðar fyrir ykkur - ekki hika við að nýta ykkur það. Guðný námsráðgjafi er tilbúin í samtöl í síma eða í gegnum netið, kennarar, umsjónarkennarar, stjórnendur - öll erum við ekki nema eitt símtal eða skilaboð frá ykkur.

#viðgetumþettasaman

Loks vil ég minna á mikilvægi þess að ,,hlýða Víði." Við þurfum öll að leggjast á eitt, ungir sem aldnir og hindra útbreiðslu smits. Rjúfum smithringinn með sameinuðu átaki.

Ég óska ykkur öllum góðrar helgar,

Lilja