28 nemendur brautskráðust í dag

Fyrr í dag fór fram brautskráning frá Verkmenntaskóla Austurlands í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði. Brautskráningin var lituð af samkomutakmörkunum líkt og í fyrra en þó voru gestir í salnum í þetta sinn. Takmarkaður fjöldi gesta mátti fylgja hverjum útskriftarnema og var því athöfninni streymt í beinni útsendingu í gegnum YouTuberás skólans. Alls brautskráðust 28 nemendur af 10 námsbrautum en það er lýsandi fyrir hið fjölbreytta námsframboð skólans.

Athöfnin var frjálsleg og fjölbreytt og komu nemendur skólans með virkum hætti að dagskránni. Nemendur fluttu tónlistaratriði og fjölbreyttar tölur voru fluttar af nemendum, starfsfólki og formanni skólanefndar.

Ísabella Danía Heimisdóttir, nemandi í skólanum, flutti fyrsta tónlistaratriði dagsins þegar hún söng lagið Við gengum tvö. Lagið er eftir Friðrik Jónsson við texta Valdimars Hólm Hallstað. Óskar Sveinsson, nemandi í skólanum, lék undir á gítar. Næst flutti nýstúdentinn Katla Heimisdóttir lagið Home to you eftir þau Sigrid Solbakk og Steve Mac. Kári Kresfelder Haraldsson, nemandi í skólanum, lék undir á flygil. Ísabella Danía flutti síðan annað lag, Vegir liggja til allra átta eftir þá Sigfús Halldórsson og Indriða G. Þorsteinsson. 

Skólameistari, Lilja Guðný Jóhannesdóttir, flutti ávarp og fór hún yfir skólaárið sem var að ljúka sem litaðist óhjákvæmilega af þeim síbreytilegu samkomutakmörkunum sem nemendur og starfsfólk þurfti að takast á við. Í ávarpinu fjallaði Lilja um þau tækifæri sem hefðu samt sem áður sprottið upp samfara þessu. Skólaþróunin var gríðarleg og nemendur og starfsfólk hefur m.a. náð góðum tökum á ýmsum tæknilausnum. Auk þess var skólanum umbylt nokkrum sinnum og um áramótin var farið í vinnustofukerfi til þess að geta haldið úti sem mestu staðnámi sama hvaða samtökutakmarkanir skytu upp kollinum. Í lok annar var kerfið síðan metið og í kjölfarið verður það endurbætt. Ekki stendur til að fara aftur í gamla farið. Auk þess hrósaði hún nemendum og starfsfólki fyrir alla þrautseigjuna í þessu öllu sama, það sýndi hversu magnað skólasamfélagið væri.

Jón Björn Hákonarson, formaður skólanefndar, flutti ávarp fyrir hönd skólanefndar og vakti m.a. athygli á því hlutverki sem skólinn hefði í samfélaginu og þeim skrefum sem hafa verið stigin í því að koma upp valkostum á háskólastigi í sveitarfélaginu. Það að búa yfir fjölbreyttum möguleikum til menntunar skipti höfuðmáli og því sé það verkefni okkar allra að standa vörð um þá.

Hafliði Hinriksson, deildarstjóri í rafiðndeild, flutti kveðju fyrir hönd starfsfólks. Í ávarpi sínu fór hann yfir þau tækifæri sem felast í iðn- og starfsnámi og óskaði þess að samfélagið hætti að gera upp á milli námsleiða. Öll störf krefðust virðingar. Hann bauð útskriftarnemum einnig til sín í rafiðndeildina, ef heimsreisan tefðist. Í lok ávarpsins sendi hann útskriftarnemum heilræði: “Verum til staðar fyrir hvert annað, gerum hvert öðru greiða, jafnvel þeim sem stökkva ekki endilega til að gera okkur greiða, þeir átta sig kannski einn daginn og verða okkur innan handar þegar á reynir.” Segja má að allir í salnum hafi tekið undir þessi orð.

Alexandra Ýr Ingvarsdóttir, nýstúdent, hélt ávarp fyrir hönd útskriftarnema. Segja má að hún hafi hreyft við öllum sem í salnum sátu og þeim sem horfðu á útsendinguna. Í fyrri hluta ræðunnar fjallaði hún um hversu gott við hefðum það hér á Íslandi, t.d. miðað við stríðshrjáð lönd úti í heimi. Henni varð svona að orði: “En það má ekki gleyma því að á meðan við erum að vorkenna okkur fyrir að hafa haft lítið sem ekkert félagslíf í eitt og hálft ár þá eru til miklu stærri vandamál út um allt í heiminum, ef við horfum til dæmis á það sem er að gerast í Palestínu akkúrat núna, þar er stríð í landi sem ekki hefur her, þar er fólk hrakið burt úr heimalandi sínu og fleiri hundruð manns, þar með talin börn, drepin til að koma skilaboðum á framfæri”. Í seinni hluta ræðunnar fór hún svo yfir það sem skiptir máli í lífinu: Heilsa, hamingja, fjölskyldan, ástríða, álit okkar á okkur sjálfum og þrautseigja.

Að venju voru veittar viðurkenningar til nemenda sem hafa skarað fram úr í námi og starfi skólans. Eftirfarandi nemendur hlutu viðurkenningar:

Marinó Eiður Gylfason hlaut viðurkenningu fyrir ágætan námsárangur í húsasmíði.

Eiríkur Jóhann Einarsson hlaut viðurkenningu fyrir ágætan námsárangur í rafiðngreinum.

Alexandra Ýr Ingvarsdóttir hlaut viðurkenningar fyrir framúrskarandi námsárangur í íslensku, ágætan námsárangur í náttúrufræðigreinum og í stærðfræði ásamt því að hljóta viðurkenningu Háskólans í Reykjavík fyrir framúrskarandi árangur í raungreinum á stúdentsprófi.

Elísa Maren Ragnarsdóttir hlaut viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur í íslensku og tungumálum ásamt því að hljóta Menntaverðlaun Háskóla Íslands.

Verkmenntaskóli Austurlands er Grænfánaskóli og fékk hann afhentan sinn annan Grænfána á skólaárinu. Umhverfissnefnd er starfrækt við skólann sem samanstendur af nemendum og starfsfólki og heldur hún utan um umhverfisstarfið. Tveir úr hópi útskriftarnema hafa starfað í umhverfisnefnd skólans og þar lagt sitt af mörkum til umhverfisins og menntunar til sjálfbærni. Þetta eru þær Alexandra Ýr Ingvarsdóttir og Elísa Maren Ragnarsdóttir og hlutu þær viðurkenningu fyrir störf sín.

Gunnþórunn Heidenreich hlaut viðurkenningu fyrir ágætan námsárangur á sjúkraliðabraut. Ár hvert gefur Sjúkraliðafélag Austurlands sjúkraliðum í hópi brautskráningarnema lykil og rós frá félaginu. Gunnþórunn útskrifaðist ein úr sjúkraliðanámi í þetta sinn og fékk lykil og rós ásamt því að vera boðin velkominn í hóp sjúkraliða.

Í lok dagskrár er hefð að syngja lagið Sumarkveðja. Í þetta sinn var það þó ekki sungið af viðstöddum vegna sóttvarnarráðstafana en í staðinn leikið í hljómkerfi hússins.