37 nemendur brautskráðust í dag

Fyrr í dag fór fram brautskráning frá Verkmenntaskóla Austurlands í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði. Brautskráningin var með hefðbundnu sniði og var salurinn þétt setinn af gestum en athöfninni var einnig streymt. Alls brautskráðust 37 nemendur af 11 námsbrautum en það er lýsandi fyrir hið fjölbreytta námsframboð skólans.

Athöfnin var frjálsleg og fjölbreytt undir dyggri stjórn Birgis Jónssonar aðstoðarskólameistara og komu nemendur með virkum hætti að dagskránni.

Eydís Ásbjörnsdóttir, skólameistari VA byrjaði athöfnina á ræðu þar sem hún kom víða við. Þar fjallaði Eydís m.a. um þau tækifæri sem menntun felur í sér og þá sérstaklega á tímum sem þessum, í síbreytilegum heimi. Hún minntist einnig á mikilvægi þess að standa vörð um fjölbreytnina sem í boði er í námsleiðum innan VA en í skólanum stunda nemendur á öllum aldri nám og er skólinn lifandi dæmi um mikilvægi þess að bjóða upp á fjölbreytt námsframboð fyrir fólk á öllum aldri, hvort sem er í verk- og starfsnámi eða í bóknámi. Má þar með segja að VA sé að mæta þörfum atvinnulífsins en á þessu s.l. skólaári minntist Eydís einmitt á það að stjórnendur skólans hafi átt gott samstarf við atvinnurekendur og sveitarfélagið Fjarðabyggð sem hafa ásamt ýmsum fyrirtækjum og félögum stutt vel við VA m.a. með styrkjum til tækjakaupa, gefið kennslugögn og með stuðningi til reksturs vissra verkefna og sendi hún bestu þakkir fyrir hönd skólans til allra hagaðila hans. Jafnframt lagði hún áherslu á að það væri allra hagur að í sveitarfélaginu væri starfandi öflugur framhaldsskóli og að mikilvægt væri að allir vinni vel saman, skóli, atvinnulíf og sveitarfélagið.

Margarette B. Sveinbjörnsdóttir nemandi VA sá um tónlistarflutning dagsins og flutti hún tvö lög við undirleik Kaido Tani á flygil en það voru lögin You say með bandarísku söngkonunni Lauren Daigle og Hit the road jack sem þekktast er í flutningi Ray Charles.

Stefán Þór Eysteinsson flutti ávarp fyrir hönd skólanefndar VA en hann útskrifaðist einmitt af náttúruvísindabraut úr VA árið 2006. Hann ítrekaði m.a. mikilvægi skólans í samfélaginu og ræddi fyrirhugaða stækkun á verknámshúsi skólans sem mun ekki aðeins bæta aðstöðu og aðgengi heldur einnig styrkja enn frekar ný tækifæri og menntun í nærsamfélaginu.

Gerður Guðmundsdóttir flutti ávarp fyrir hönd starfsfólks. Í ávarpi sínu ræddi Gerður um það hvernig þeir nemendur sem nú eru að útskrifast hófu margir hverjir skólagöngu sína á lokametrum Covid-faraldursins og hvernig nemendur tóku sér tíma til að taka pláss og stækka eftir því sem leið á námið sem segir ýmislegt um mikilvægi þess að eiga samfélag eins og VA er þar sem nemendur tilheyra og koma saman. Gerður kom sérstaklega inn á hlutverk sjúkraliða og mikilvægi þeirrar námsbrautar og ræddi þar m.a. persónulega reynslu sína af hlutverki sjúkraliða í þjónustuíbúðum aldraðra á Hulduhlíð á Eskifirði.

Þórður Páll Ólafsson flutti ávarp fyrir hönd útskriftarnema. Þórður ræddi þar m.a. kosti skólans og hvernig það skipti hann máli að velja skóla þar sem hann var ekki tala á blaði heldur í nánum samskiptum við nemendur og starfsfólk innan veggja skólans. Einnig sagði hann það mikil forréttindi að geta sótt skóla í sinni heimabyggð og að það hafi verið ein helsta ástæða þess að hann valdi að fara í VA.

Að venju voru veittar viðurkenningar til nemenda sem hafa skarað fram úr í námi og starfi skólans. Eftirfarandi nemendur hlutu viðurkenningar í dag:

Dagný Steindórsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur á sjúkraliðabraut.

Embla Rós V. Sigurbrandsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir félgasstörf en hún tók virkan þátt í listaakademíu skólans.

Guðmundur Harðarson hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í húsasmíði.

Hákon Gunnarsson hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í sérgreinum á námsbraut í vélstjórn.

Halldóra Halldórsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í sérgreinum á námsbraut fyrir stuðningsfulltrúa

Ingibjörg Ásdís Heimisdóttir hlaut viðurkenningu fyrir ágætan námsárangur í íslensku ásamt viðurkenningu fyrir félagsstörf en hún sat í umhverfisnefnd skólans í tvö ár.

Magnfríður Jóna Kristjánsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur á þjónustubraut fyrir stuðningsfulltrúa.

Marteinn Eiríksson hlaut viðurkenningu fyrir ágætan námsárangur í rafvirkjun.

Sóldís Tinna Eiríksdóttir hlaut viðurkenningu fyrir félagsstörf en hún sat í umhverfisnefnd skólans í tvö ár.

Sóley Rún Jónsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í sérgreinum í sjúkraliðanámi.

Þórður Páll Ólafsson hlaut viðurkenningu fyrir félagsstörf en hann sat í umhverfisnefnd skólans í tvö ár.

Ár hvert gefur Sjúkraliðafélag Austurlands sjúkraliðum í hópi brautskráningarnema lykil og rós frá félaginu. Í ár brautskráðust 5 nemendur úr sjúkraliðanámi og fengu þau lykil og rós ásamt því að vera boðin vekomin í hóp sjúkraliða.

Í lok dagskrár var samkvæmt hefð lagið Sumarkveðja flutt við undirleik Kaido Tani, en síðustu ár hefur upptaka af laginu verið spiluð. Að venju tóku gestir hraustlega undir og sungu með. Að formlegri dagskrá lokinni bauð skólinn gestum í kaffi og konfekt og að því loknu fóru útskriftarnemar einn af öðrum með fjölskyldum sínum og aðstandendum.