44 nemendur brautskráðir frá VA

Fyrr í dag fór fram brautskráning frá Verkmenntaskóla Austurlands í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði. Brautskráningin var loksins með hefðbundnu sniði eftir samkomutakmarkanir síðustu ára og var salurinn þétt setinn af gestum en athöfninni var einnig streymt. Upptöku af streyminu má finna hér.

Alls brautskráðust 44 nemendur af 10 námsbrautum en það er lýsandi fyrir hið fjölbreytta námsframboð skólans.

Athöfnin var frjálsleg og fjölbreytt undir dyggri stjórn Unnar Ásu Atladóttur áfangastjóra, og komu nemendur með virkum hætti að dagskránni.

Nýstúdentinn Ísabella Danía Heimisdóttir sá um tónlistarflutning dagsins að mestu leyti. Fyrst flutti hún lagið Leiðin okkar allra við undirleik Kára Kresfelder Haraldssonar. Lagið náði vinsældum áður í flutningi hljómsveitarinnar Hjálma. Síðan fluttu þau Kári lagið Ferðalok, sem var gert ódauðlegt í flutningi Óðins Valdimarssonar.

Skólameistari, Hafliði Hinriksson, flutti sitt fyrsta brautskráningarávarp sem skólameistari og kom víða við í sinni ræðu. Í ræðunni fjallaði Hafliði m.a. um þá þrautseigju sem nemendur bjuggu yfir í gegnum framhaldsskólagönguna enda hluti nemenda sem stundaði nánast allt sitt nám í skugga veirunnar. Hann fjallaði einnig um það hvernig skólinn undirbýr nemendur fyrir þátttöku í lýðræði og benti þar á hvernig leitað hefur verið álits nemenda á breytingum í skólastarfinu.

Jón Björn Hákonarson, formaður skólanefndar, flutti sitt síðasta ávarp fyrir hönd skólanefndar, en hann hyggst ekki leita endurskipunar þegar ný skólanefnd verður skipuð síðar á árinu. Hann ítrekaði m.a. mikilvægi skólans í samfélaginu og hvernig við öll þurfum að standa vörð um skólann okkar. Hann kom einnig inn á þróun skólastarfsins, samstarf við grunnskólanna í Fjarðabyggð og áform um nýbyggingu undir trésmíðadeild skólans.

Petra Lind Sigurðardóttir flutti ávarp fyrir hönd starfsfólks. Í ávarpi sínu byrjaði Petra á því að leggja út af uppáhaldstilvitnun sinni, að við þurfum ekki að vera tré. Í því voru fólgin heilræði til nemenda þar sem hún brýndi fyrir þeim að velja sér leið sem geri þau hamingjusöm, það er allt í lagi að breyta til og ekki vera tré.

Freysteinn Bjarnason, sem útskrifaðist af opinni stúdentsbraut, hélt ávarp fyrir hönd útskriftarnema. Hann fór m.a. yfir skólagöngu sína og hvernig það var að stunda nám í Covid, bak við tölvuskjá, jafnvel í Playstation á meðan kennslustundin fór fram. Hann hrósaði einnig starfsfólki skólans og lét salinn klappa fyrir því.

Að venju voru veittar viðurkenningar til nemenda sem hafa skarað fram úr í námi og starfi skólans. Eftirfarandi nemendur hlutu viðurkenningar:

Bjarney Birta Bergsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir ágætan námsárangur í félagsfræðigreinum.

Dagnija Karabesko hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í sérgreinum á sjúkraliðabraut.

Einar Þorgeir Garðarsson hlaut viðurkenningu fyrir ágætan námsárangur í rafiðngreinum.

Ester Rún Jónsdóttir hlaut viðurkenningar fyrir framúrskarandi námsárangur í íslensku og í erlendum tungumálum. Hún hlaut einnig raungreinaverðlaun Háskólans í Reykjavík fyrir framúrskarandi árangur í raungreinum á stúdentsprófi.

Hákon Þorbergur Jónsson hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í íslensku og menntaverðlaun Háskóla Íslands fyrir góðan námsárangur og eftirtektarvert framlag til skólastarfsins.

Hrannar Snær Halldórsson hlaut viðurkenningu fyrir ágætan námsárangur í húsasmíði.

Jóhanna S. Sigurbjörnsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í sérgreinum þjónustubrautar fyrir stuðningsfulltrúa í grunnskólum.

Leifur Páll Guðmundsson hlaut viðurkenningu fyrir ágætan námsárangur í véltæknigreinum.

Lilja Finnbogadóttir hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í sérgreinum á sjúkraliðabraut.

Þórarinn Bjarnason hlaut viðurkenningu fyrir ágætan námsárangur í húsasmíði.

Einnig var veitt viðurkenning fyrir framúrskarandi námsárangur á stúdentsprófi og var það Ester Rún Jónsdóttir sem var brautskráð af náttúruvísindabraut sem hlaut hana.

Félagslíf í framhaldsskólum er mikilvægt, bæði fyrir nemendur og skólasamfélagið. Við brautskráninguna voru veittar viðurkenningar fyrir að hafa starfað dyggilega að félagslífi skólans. Þeir Freysteinn Bjarnason og Oddur Óli Helgason fengu viðurkenningu fyrir störf sín í nemendafélaginu. Þau Hákon Þorbergur Jónsson og Helena Lind Ólafsdóttir voru hluti af Gettu-betur liði skólans í vetur sem skrifaði sig í sögubækurnar með því að komast í sjónvarpshuta keppninnar en það var í annað sinn í sögunni sem skólinn komst á það stig. Fengu þau viðurkenningu fyrir það en auk þess starfaði Hákon í nemendafélaginu og Helena tók virkan þátt í starfi Listakademíunnar. Ísabella Danía Heimisdóttir fékk einnig viðurkenningu fyrir þáttöku sína í Listakademíunni og fyrir að hafa sungið á fjölmörgum viðburðum og tekið þátt í Söngkeppni framhaldsskólanna fyrir hönd skólans.

Ár hvert gefur Sjúkraliðafélag Austurlands sjúkraliðum í hópi brautskráningarnema lykil og rós frá félaginu. Í ár brautskráðust tíu nemendur úr sjúkraliðanámi og fengu þau lykil og rós ásamt því að vera boðin velkomnin í hóp sjúkraliða.

Í lok dagskrár var samkvæmt hefð lagið Sumarkveðja flutt. Á síðasta ári var í fyrsta sinn spiluð upptaka af laginu og var því haldið áfram nú og tóku gestir hraustlega undir. Að formlegri dagskrá lokinni hentust nemendur einn af öðrum í útskriftarveislur með fjölskyldum sínum.