46 nemendur brautskráðust í dag

Fyrr í dag fór fram brautskráning frá Verkmenntaskóla Austurlands í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði. Brautskráningin var með hefðbundnu sniði og var salurinn þétt setinn af gestum en athöfninni var einnig streymt. Upptöku af streyminu má finna hér.

Alls brautskráðust 46 nemendur af 12 námsbrautum en það er lýsandi fyrir hið fjölbreytta námsframboð skólans.

Athöfnin var frjálsleg og fjölbreytt undir dyggri stjórn Unnar Ásu Atladóttur áfangastjóra, og komu nemendur með virkum hætti að dagskránni.

Útskriftarneminn Kári Kresfelder Haraldsson sá um tónlistarflutning dagsins en hann hefur áður komið við sögu á útskriftum í sögu skólans. Hann flutti tvö lög á flygilinn. Fyrst lagið Claire de Lune eftir Debussy og síðan frumsamda lagið Mechanical Joy.

Skólameistari, Eydís Ásbjörnsdóttir, flutti sitt fyrsta brautskráningarávarp sem skólameistari og kom víða við í sinni ræðu. Í ræðunni fjallaði Eydís m.a. um áhrif Covid á skólagöngu útskriftarnemanna en stór hluti þeirra hóf nám þegar veiran var í hámarki. Einnig nefndi hún hvernig félagslífið hafi risið upp í kjölfar veirunnar og þann frábæra árangur sem Gettu-betur lið skólans náði á árinu. Í lok ræðunnar benti hún á mikilvægi skólans í samfélaginu og hvernig við eigum að standa vörð um skólann okkar.

Þórður Vilberg Guðmundsson, formaður skólanefndar, flutti sitt fyrsta ávarp fyrir hönd skólanefndar. Hann ítrekaði m.a. mikilvægi skólans í samfélaginu og hvernig við öll þurfum að standa vörð um skólann okkar. Hann geti verið í fararbroddi í þeim breytingum í framhaldsskólakerfinu sem nú standa fyrir dyrum enda einn af bestu verknámsskólum landsins. Við þurfum því öll að standa saman í því að sækja fram.

Arnar Guðmundsson flutti ávarp fyrir hönd starfsfólks. Í ávarpi sínu fór Arnar líkt og aðrir á undan honum yfir þær áskoranir sem fólust í skólastarfi í skugga veirunnar. Nemendahópurinn hafi þó risið undir þeim áskorunum og geti allt sem hann ætlar sér í framhaldinu. Einnig kom hann inn á hvernig þátttakan í Gettu-betur og Íslandsmóti iðn- og verkgreina hafi sýnt hvað skólinn er öflugur og öll þau sem komu að þessum verkefnum hafi verið sér og skólanum til mikils sóma.

Þau Anna Móberg Herbertsdóttir og Arnar Freyr Sigurjónsson útskriftanemar, fluttu ávörp fyrir hönd útskriftarnema. Þau voru m.a. yfir kosti skólans, hvernig það að vera lítill skóli valdi því að nemendur og starfsfólk séu eins og ein stór fjölskylda. Það sé mikilvægt að standa vörð um þau gildi því mikilvægi skólans í samfélaginu sé afar mikið. Það séu forréttindi að geta sótt frábæran skóla í sinni heimabyggð.

Að venju voru veittar viðurkenningar til nemenda sem hafa skarað fram úr í námi og starfi skólans. Eftirfarandi nemendur hlutu viðurkenningar:

Anna Helgadóttir hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í sérgreinum á sjúkraliðabraut.

Anna Móberg Herbertsdóttir hlaut viðurkenningar fyrir framúrskarandi námsárangur á stúdentsprófi. Einnig hlaut hún raungreinaverðlaun Háskólans í Reykjavík fyrir framúrskarandi árangur í raungreinum og viðurkenningu fyrir þátttöku í Gettu-betur æfingahópnum.

Arnar Freyr Sigurjónsson hlaut viðurkenningu fyrir þátttöku í félagslífi en hann hefur setið í stjórn nemendafélagsins.

Arnór Berg Grétarsson hlaut viðurkenningu fyrir þátttöku í félagsstörfum, hann var í Gettu-betur æfingahópnum og hefur setið í umhverfisnefnd skólans.

Barbara Kresfelder hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í húsasmíði.

Beata Stanislawa Kizewska hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur á sjúkraliðabrú.

Dagur Þór Hjartarson hlaut viðurkenningu fyrir þátttöku í félagsstörfum en hann hefur m.a. verið formaður nemendafélagsins á árinu.

Embla Rós Ingvarsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur á stúdentsprófi og viðurkenningu fyrir þátttöku í félagsstörfum en hún hefur m.a. verið varaformaður nemendafélagsins á árinu.

Geir Sigurbjörn Ómarsson fyrir hlaut viðurkenningu fyrir þátttöku í félagsstörfum en hann var í Gettu-betur liði skólans síðustu tvö ár.

Helga Svanhvít Þrastardóttir hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í húsasmíði.

Helgi Sigurður Jónasson hlaut viðurkenningu fyrir þátttöku í félagsstörfum en hann hefur setið í stjórn nemendafélagsins.

Mikael Þór Viðarsson hlaut viðurkenningu fyrir ágætan námsárangur í rafvirkjun.

Ragnar Þórólfur Ómarsson hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur á stúdentsprófi. Einnig hlaut hann Menntaverðlaun Háskóla Íslands, viðurkenningu frá stærðfræðifélaginu fyrir framúrskarandi árangur í stærðfræði og viðurkenningu fyrir þátttöku í félagsstörfum en Ragnar hefur verið í Gettu-betur liði skólans öll þrjú námsár sín og hefur setið í stjórn nemendafélagsins.

Sigríður Sandra Benediktsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir ágætan námsárangur í sérgreinum þjónustubrautar.

Styrmir Örn Sigurfinnsson hlaut viðurkenningu fyrir þátttöku í félagsstörfum en hann var í Gettu-betur æfingahópnum.

Sveinbjörn Baldur Valdimarsson hlaut viðurkenningu fyrir þátttöku í félagsstörfum en hann hefur setið í stjórn nemendafélagsins.

Vilborg Guðnadóttir hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur á sjúkraliðabrú.

Ár hvert gefur Sjúkraliðafélag Austurlands sjúkraliðum í hópi brautskráningarnema lykil og rós frá félaginu. Í ár brautskráðust átta nemendur úr sjúkraliðanámi og fengu þau lykil og rós ásamt því að vera boðin velkomnin í hóp sjúkraliða.

Í lok dagskrár var samkvæmt hefð lagið Sumarkveðja flutt. Síðustu ár hefur upptaka af laginu verið spiluð og var því haldið áfram nú og tóku gestir hraustlega undir. Að formlegri dagskrá lokinni bauð skólinn gestum í kaffi og konfekt og að því loknu fóru útskriftarnemar einn af öðrum með fjölskyldum sínum.