Alls kyns lausnir í VA

Birta Sæmundsdóttir kennir spænsku og upplýsingatækni í VA. Eins og aðrir kennarar skólans heldur hún kennslu sinni úti samkvæmt stundaskrá í gegnum veflæga kennslustofu, Bláa hnöttinn.

Birta sér ýmsa kosti við þetta fyrirkomulag og segir að þó áskorun hafi fylgt því að skipta yfir í fjarnám þá fylgi því líka ný tækifæri. ,,Í spænsku nota ég Google Drive til þess að flakka á milli skjala nemenda og fylgjast með vinnu þeirra í tíma í stað þess að labba á milli borða í kennslustofunni. Í margmiðlun „stíg“ ég út fyrir með nemendum í hinum svokölluðu „break out rooms“ sem Blái hnötturinn hefur upp á að bjóða. Þá gefst mér tækifæri til þess að spjalla með hverjum og einum nemanda í friði, taka stöðuna á honum og spyrja hvernig þeim gengur og líður. Ég hef þannig kynnst nemendum mínum mun betur en ég hafði nokkurn tímann gert í kennslustofunni sjálfri. Þó ég hlakki til þess að fara aftur í kennslustofuna þá er þetta skemmtileg lífsreynsla.“