Austfirsku Ólympíuleikarnir og heimsókn á Höfn

Það var nóg um að vera hjá nemendum okkar og starfsfólki síðastliðinn föstudag þar sem haldið var í heimsókn til Hornafjarðar og Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu (FAS) heimsóttur. Tilefnið var þátttaka skólans á  Austfirsku Ólympíuleikunum sem nemendafélög VA, FAS og ME stóðu fyrir þar sem keppt var á milli skóla í hinum ýmsu greinum og þrautum í íþróttahúsinu s.s. bandý, fótbolta, boðhlaupi, stinger og tískusýningu. Gaman er að segja frá því að það voru nemendur VA sem stóðu uppi sem sigurvegarar í þetta skiptið með besta samanlagða árangur úr öllum greinum dagsins. Að lokinni dagskrá í íþróttahúsinu fengu nemendur frítíma til að kíkja í sund, göngutúr eða hreinlega slaka á áður en skólinn bauð upp á pizzaveislu. Dagskráin endaði svo með balli fyrir nemendur í Sindrabæ þar sem Nussun, Húgó, Darri og DJ Eisi stigu á stokk. 

Austfirsku Ólympíuleikarnir voru endurvaktir s.l. skólaár þegar ME stóð fyrir keppninni en þeir voru á árum áður árviss viðburður sem skólarnir skiptust á að halda. Næst er komið að okkur í VA að standa fyrir leikunum og hlökkum við mikið til að bjóða FAS og ME í heimsókn til okkar enda er þetta frábær leið til að halda uppi samskiptum á milli skólanna. 

Á meðan nemendur tóku þátt í dagskrá í íþróttahúsinu fengu kennararnir kynningu á FAS og settust í framhaldinu niður til að ræða saman um skólaþróun. 

Við þökkum FAS og ME kærlega fyrir skemmtilegan uppbrotsdag. 

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá deginum.