Birgir Jónsson nýr skólameistari VA

Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, hefur skipað Birgi Jónsson í embætti skólameistara Verkmenntaskólans á Austurlandi til fimm ára frá 1. ágúst næstkomandi.

Birgir hefur starfað við skólann frá árinu 2019 sem kennari, verkefnastjóri með gæða- og jafnlaunakerfi skólans, aðstoðarskólameistari og sem settur skólameistari. Áður var hann skólastjóri við Eskifjarðarskóla.

Birgir er með meistaragráðu frá Háskóla Íslands í opinberri stjórnsýslu með áherslu á stjórnun menntastofnana auk kennsluréttinda frá Háskóla Íslands. Hann lauk grunnnámi í sagnfræði frá sama skóla.

Alls sóttu fjórir um embættið.

Birgir tekur við embættinu af Eydísi Ásbjörnsdóttur sem hafði verið skólameistari frá árinu 2022 en hefur nú tekið sæti á Alþingi.