Brautskráning 2019

Í gær fór fram brautskráning frá Verkmenntaskóla Austurlands í Tónlistarmiðstöð Austurlands. Alls brautskráðust 35 nemendur af 11 námsbrautum en það er lýsandi fyrir hið fjölbreytta námsframboð skólans. Þess má geta að við brautskráninguna í gær brautskráðust í fyrsta sinn stúdentar af nýsköpunar- og tæknibraut.

Athöfnin var með frjálslegum og fjölbreyttum brag, nemendur fluttu tónlistaratriði og fjölbreyttar tölur voru fluttar af nemendum og starfsfólki.

Flutti Natalia Weronika Jagielska nýstúdent lagið Despacito eftir Luis Fonsi við undirleik Írenu Fannar Clemmensen á flygil. Einnig fluttu þær María Bóel Guðmundsdóttir og Ísabella Danía Heimisdóttir lagið Ekki lengur hér en lag og texti er eftir Maríu Bóel.

Skólameistari, Lilja Guðný Jóhannesdóttir, flutti ávarp og gerði að umtalsefni mikilvægi umhverfisfræðslu í skólum en VA hlaut Grænfána síðastliðið haust. Birta Sæmundsdóttir flutti ávarp fyrir hönd starfsmanna og sló á létta strengi í máli sínu. Þrjár systur brautskráðust saman í gær, þær Rósa Margrét Möller Óladóttir, Halldóra Marín Svansdóttir og Rebekka Rut Svansdóttir. Fluttu þær í sameiningu ávarp fyrir hönd útskriftarnema þar sem þær sögu frá reynslu sinni af árunum í VA.

Að venju voru veittar viðurkenningar til nemenda sem hafa skarað fram úr í námi og starfi skólans. Eftirfarandi nemendur hlutu viðurkenningar:

Kristrún Thanyathon Rodpitak  hlaut viðurkenningu fyrir  framúrskarandi námsárangur í íslensku, framúrskarandi námsárangur í tungumálum og fyrir ágætan námsárangur í náttúrufræðigreinum.

Svanur Freyr Jóhannsson hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í húsasmíði.

Valdís Kapitola Þorvarðardóttir hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í félagsfræðigreinum.

Sólveig Lilja Ómarsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur á námsbraut fyrir stuðningsfulltrúa í grunnskólum.

Helga Valbjörnsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir ágætan námsárangur á sjúkraliðabraut.

Sylvía Hera Skúladóttir hlaut viðurkenningu fyrir ágætan námsárangur á námsbraut fyrir leiðbeinendur í leikskólum.

Rebekka Rut Svansdóttir hlaut viðurkenningu fyrir ágætan námsárangur á nýsköpunar- og tæknibraut.

Guðrún Helga Guðjónsdóttir  hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í stærðfræði.

Einnig voru veittar viðurkenningar til nemenda fyrir  framúrskarandi námsárangur með meðaleinkunn 9 eða hærri. Eftirfarandi nemendur hlutu viðurkenningu:

Marta Guðlaug Svavarsdóttir – brautskráð af opinni stúdentsbraut með meðaleinkunn 9,38.

Kristrún Thanyathon Rodpitak  – brautskráð af náttúruvísinda­braut með meðaleinkunnina 9,04.

Sólveig Lilja Ómarsdóttir – brautskráð af námsbraut fyrir stuðningsfulltrúa með meðaleinkunnina 9,00.

Veitt var viðurkenning fyrir dugnað í námi á starfsbraut og hana hlaut Sveinn Marinó Larsen. Sveinn Marinó brautskráðist í gær af tveimur námsbrautum, starsfbraut og húsasmíðabraut.

Félagslíf í framhaldsskólum er mikilvægt, bæði fyrir nemendur og skólasamfélagið. Við brautskráninguna var veitt viðurkenning fyrir að hafa starfað dyggilega að félagslífi skólans og sýnt dugnað í þágu samnemenda sinna. Þessa viðurkenningu hlaut Rebekka Rut Svansdóttir.

Við skólann hefur verið starfrækt Listaakademía um nokkura ára skeið. Eins og félagslífið er mikilvægt þá er menningin ekki síður mikilvæg. Listakademían og leikfélagið Djúpið vinna náið saman og setja upp metnaðarfullar leiksýningar. Rebekka Rut Svansdóttir og Halldóra Marín Svansdóttir hlutu hlutu viðurkenningu fyrir að hafa unnið ötullega í listaakademíunni.

Að formlegri dagskrá lokinni bauð skólinn brautskráðum nemendum, aðstandendum og starfsfólki upp á léttar veitingar.