Brautskráning 2020

Upplestur á frétt.

Fyrr í dag fór fram brautskráning frá Verkmenntaskóla Austurlands í Tónlistarmiðstöð Austurlands. Brautskráningin var með nokkuð breyttu sniði vegna takmarkana á samkomuhaldi. Aðeins brautskráningarefni, tæknifólk, stjórnendur, undirleikari og ljósmyndari voru viðstödd og var athöfninni streymt í beinni útsendingu í gegnum YouTuberás skólans. Alls brautskráðust 34 nemendur af 10 námsbrautum en það er lýsandi fyrir hið fjölbreytta námsframboð skólans.

Athöfnin var frjálsleg og fjölbreytt og komu nemendur með afar virkum hætti að dagskránni. Nemendur fluttu tónlistaratriði og fjölbreyttar tölur voru fluttar af nemendum, starfsfólki og formanni skólanefndar.

Nýstúdentinn María Bóel Guðmundsdóttir flutti fyrsta tónlistaratriðið þegar hún söng og lék undir á flygil lagið Ekkert breytir því úr smiðju Sálarinnar hans Jóns míns. Næst var röðin komin að nýstúdentnum Birnu Marín Viðarsdóttur sem flutti lagið Vetrarsól eftir Gunnar Þórðarson og Ólaf Hauk Símonarson. Þriðja og síðasta tónlistaratriðið var flutningur Evu Bjargar Sigurjónsdóttur á laginu Lítill fugl sem þau Ellý og Vilhjálmur Vilhjálmsbörn gerðu ódauðlegt á árum áður. Júlíus Óli Jacobsen lék undir á flygil.

Skólameistari, Lilja Guðný Jóhannesdóttir, flutti ávarp og kom víða við í sinni ræðu. Í ræðunni tengdi Lilja grunnþætti menntunar við viðburði ársins í skólastarfinu og í gegnum ræðu hennar mátti sjá hversu greinilegir grunnþættirnir eru í skólastarfinu. Hún kom einnig inn á það mikla afrek sem starfsfólk og nemendur unnu í náminu meðan skólinn var lokaður.

Jón Björn Hákonarson, formaður skólanefndar, flutti ávarp fyrir hönd skólanefndar og ítrekaði m.a. mikilvægi skólans í samfélaginu en einnig mikilvægi þess að stjórnvöld tryggðu að fjármagn fylgdi til þess að hægt væri að tryggja þá mikilvægu byggðastefnu sem fælist í öflugum framhaldsskóla.

Í þetta sinn var ávarp starfsfólks með heldur óhefðbundnu sniði. Var það í formi myndbands þar sem starfsfólk sendi brautskráningarnemum fjölbreyttar kveðjur. Mátti sjá glitta í tár í gegnum brosin hjá brautskráningarnemum við hinar hjartnæmu kveðjur starfsfólks.

Tveir brautskráningarnemar héldu ávarp fyrir hönd hópsins. Steinunn Dagmar Björgvinsdóttir, sem útskrifaðist af opinni stúdentsbraut, fjallaði um þau miklu tækifæri sem hún öðlaðist í gegnum nám sitt og veru í skólanum og Oddur Logi Reynisson, sem útskrifaðist af námsbraut í húsasmíði, fjallaði um hvernig raunfærnimat varðaði honum leiðina aftur í nám.

Að venju voru veittar viðurkenningar til nemenda sem hafa skarað fram úr í námi og starfi skólans. Eftirfarandi nemendur hlutu viðurkenningar:

Þórdís Pála Reynisdóttir hlaut viðurkenningu fyrir ágætan námsárangur í húsasmíði.

Hjálmar Wais Joensen hlaut viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í rafiðngreinum.

María Bóel Guðmundsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í félagsfræðigreinum og stærðfræði.

Guðný Klara Einarsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir ágætan námsárangur á nýsköpunar- og tæknibraut.

Anna Karen Marinósdóttir hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í íslensku og erlendum tungumálum ásamt því að hljóta Menntaverðlaun Háskóla Íslands.

Elvar Geir Geirsson hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur á sjúkraliðabrú.

Hafþór Árni Hermannson hlaut viðurkenningu fyrir ágætan námsárangur í náttúrufræðigreinum ásamt því að hljóta viðurkenningu Háskólans í Reykjavík fyrir framúrskarandi árangur í raungreinum á stúdentsprófi og viðurkenningu Stærðfræðifélags Íslands fyrir afburðaárangur í stærðfræði.

Einnig voru veittar viðurkenningar til nemenda fyrir framúrskarandi námsárangur með meðaleinkunn 9 eða hærri. Eftirfarandi nemendur hlutu viðurkenningu:

Anna Karen Marinósdóttir – brautskráð af Náttúruvísindabraut.

María Bóel Guðmundsdóttir  – brautskráð af Félagsvísindabraut.

Félagslíf í framhaldsskólum er mikilvægt, bæði fyrir nemendur og skólasamfélagið. Við brautskráninguna var veitt viðurkenning fyrir að hafa starfað dyggilega að félagslífi skólans og sýnt dugnað í þágu samnemenda sinna. Þessa viðurkenningu hlaut Steinunn Dagmar Björgvinsdóttir fyrir afar vel unnin störf til að efla andann innan skólans með þátttöku í hinum ýmsu félögum, ráðum og nefndum.

Við skólann hefur verið starfrækt Listaakademía um nokkura ára skeið. Eins og félagslífið er mikilvægt þá er menningin ekki síður mikilvæg. Listakademían og leikfélagið Djúpið vinna náið saman og setja upp metnaðarfullar leiksýningar en í ár þurfti því miður að fresta uppsetningu sýningarinnar vegna samkomutakmarkana. Þær Birna Marín Viðarsdóttir, Eva Björg Sigurjónsdóttir og Ýr Gunnarsdóttir hlutu viðurkenningu fyrir að hafa unnið ötullega í listaakademíunni.

NIVA, Nemendafélag VA, starfaði af miklum krafti í vetur. Í upphafi skólaárs bauð öflugur hópur kvenna sig fram í stjórn og var meirihluti þeirra í hópi brautskráningarnema í dag. Þær Aníta Rakel Hauksdóttir, Birna Marín Viðarsdóttir, Eva Björg Sigurjónsdóttir, María Bóel Guðmundsdóttir, Særún Birta Valsdóttir, Steinunn Dagmar Björgvinsdóttir og Ýr Gunnarsdóttir hlutu viðurkenningu fyrir þetta mikilvæga starf sitt.

Ár hvert gefur Sjúkraliðafélag Austurlands sjúkraliðum í hópi brautskráningarnema lykil og rós frá félaginu. Í ár brautskráðust fjórir nemendur úr sjúkraliðanámi og fengu þeir lykil og rós ásamt því að vera boðnir velkomnir í hóp sjúkraliða.

Í lok dagskrár sungu allir viðstaddir samkvæmt hefð lagið Sumarkveðju. Þær María Bóel og Eva Björg sáu um að vera forsöngvarar og tóku viðstaddir hraustlega undir í söngnum. Júlíus Óli sá um undirleik. Að formlegri dagskrá lokinni hentust nemendur einn af öðrum í útskriftarmyndatöku en vegna fjarlægðartakmarkana var um einstaklingsmyndir að ræða sem verður raðað saman á skólaspjald.