Breytt fyrirkomulag út vikuna

Vegna hertra sóttvarnaaðgerða sem tilkynnt var um í dag verður framhaldsskólum landsins lokað frá og með miðnætti. Ráðstafanirnar sem nú er verið að grípa til munu gilda framyfir páska.

Í VA mun kennsla mestmegnis fara fram á kennsluvef þessa tvo síðustu daga fram að páskaleyfi og eru nemendur hvattir til að vinna að verkefnum sínum í gegnum vefinn. Þetta þýðir að ekki verður kennt samkvæmt stundaskrá út vikuna.

Í einstaka áföngum verður kennsla eða stuðningur veittur í gegnum Bláa hnöttinn sem tengist þá verkefnum vikunnar í viðkomandi áföngum. Að sama skapi verður hluti þeirra prófa sem halda átti nú í vikunni færður yfir í fjarpróf. Einhverjum prófum verður frestað framyfir páskaleyfi.

Fyrirmæli um vinnulag næstu tvo daga verða komin inn á kennsluvefi allra áfanga fyrir klukkan 20:00 í kvöld. Nemendur er beðnir um að opna alla áfanga sína á kennsluvef fyrir morgundaginn og kynna sér fyrirkomulag hvers áfanga.

Heimavist

Nemendur á heimavist eru beðnir að halda heim í páskaleyfi ekki síðar en á morgun (fimmtudag). Rútur fara frá Nesbakka og VA á fimmtudagsmorgun kl. 6:50 og aftur kl. 14:10. Sjá nánar hér. Mötuneyti vistarinnar verður opið fyrir morgunverð og hádegisverð á morgun (fimmtudag) en verður lokað að því loknu framyfir páskaleyfi. Vistarbúar sem vilja nýta sér hádegisverð á morgun þurfa að láta vita af því Facebook síðu heimavistarinnar fyrir kl. 10:00 á morgun (fimmtudag). Ef enginn lætur vita af sér verður ekki opið í hádegismat þar sem þetta er eingöngu hugsað til að gefa nemendum svigrúm til að komast til síns heima án þess að verða svangir á meðan.

Skólaakstur

Skólaakstur fellur niður frá og með deginum í dag og þar til skólinn verður opnaður aftur.

Við klárum þetta saman

Enn sem fyrr erum við starfsfólk skólans til staðar fyrir ykkur kæru nemendur, við erum ekki í nema símtals eða tölvupósts fjarlægð.

Guðný náms- og starfsráðgjafi (gudnybjorg@va.is) mun verða í sambandi við þá nemendur sem eiga bókuð viðtöl hjá henni en viðtölin verða færð yfir í Teams. Einnig geta nemendur bókað Teams viðtöl hjá Guðnýju, Karen (karen@va.is) og Lilju (lilja@va.is). Námsval fyrir komandi önn stendur yfir og þrátt fyrir að við getum ekki hitt nemendur á staðnum getum við engu að síður aðstoðað við valið eins og þörf er á.

Höfum hugfast að þetta fer allt saman að taka enda og í sameiningu munum við taka brekkuna sem framundan er af krafti – því við munum klára þetta saman! Hlýðum Víði og hlúum hvert að öðru á þessum lokametrum langhlaupsins.

Kveðja frá starfsfólki VA