Breyttar sóttvarnareglur

Frá og með deginum í dag starfa framhaldsskólar landsins eftir talsvert léttari takmörkunum en verið hefur. Ný reglugerð um takmörkun á skólastarfi heimilar skólastarf að því tilskyldu að

  • nemendur og starfs­fólk geti haft minnst 1 metra fjarlægð sín á milli og að
  • fjöldi nemenda og starfs­manna fari aldrei yfir 150 í hverju rými.

Hvað íþróttastarf í skólum varðar mun það nú fara eftir reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar. Það þýðir að heimilt sé að 50 framhaldsskólanemar komi saman á íþróttaæfingu og -keppni, innan dyra jafnt sem utan, með eða án snertingar.

Í VA höfum við ákveðið að grímunotkun verði ekki lengur skyld í skólanum að því gefnu að hægt sé að hafa minnst 1 metra á milli einstaklinga. Við þurfum því að leggjast öll á eitt, nemendur og starfsfólk, við að halda þessari fjarlægð.

Þetta getur breyst með mjög litlum fyrirvara komi til þess að smit aukist aftur í samfélaginu eða ef illa gengur að virða 1 metra nándarmörkin.

Enn sem fyrr eru kennarar verkstjórar í kennslustofum og geta óskað þar eftir grímunotkun. Í sumum kennslustundum er ekki hægt að leiðbeina án þess að grímur séu notaðar.

Grímur verða áfram aðgengilegar við anddyri en nú verða þær einnig til staðar í kennslustofum ef grípa þarf til þeirra þar.

Enn sem fyrr er þetta verkefni sem við rúllum upp með því að gera þetta saman!