Danskir skiptinemar í VA

Undanfarnar þrjár vikur hafa verið danskir skiptinemar hjá okkur í VA. Þetta eru þeir Mike, Anders, Rasmus og Casper. Koma þeir félagar úr verknámsskólanum Mercantec sem er samstarfsskóli VA í Viborg í Danmörku. 

Þessar þrjár vikur hafa dönsku skiptinemarnir stundað starfsnám víða í fyrirtækjum í Fjarðabyggð. Hafa Mike og Rasmus fengið þjálfun í rafvirkjun hjá Launafli, Anders hefur verið að læra húsasmíði hjá Trévangi og Casper hefur fengið þjálfun í vélvirkjun hjá G.Skúlasyni. Þökkum við þessum fyrirtækjum kærlega fyrir frábærar móttökur skiptinemanna. Án samstarfs og velvilja fyrirtækja í Fjarðabyggð gætum við ekki veitt nemendum okkar tækifæri til skiptnáms eins og við gerum í dag. 

Heimsóknir skiptinema til VA eru liður í Evrópusamstarfi skólans en samstarfi felst bæði í því að nemendur og starfsmenn heimasækja skóla erlendis og í því að taka á móti gestum. Eins og fram kemur í alþjóðastefnu VA þá er afar mikilvægt að nemendur í dag séu ekki aðeins undirbúnir fyrir frekara nám og/eða starf á Íslandi heldur einnig á alþjóðlegum markaði. Ungmenni í dag þurfa að átta sig á að Ísland er ekki eini starfsvettvangurinn sem þeim býðst – öll Evrópa er undir. Framtíðin kallar á sveigjanleika og samstarfshæfni og vegna alþjóðavæðingar er góð tungumálakunnátta orðin lykilhæfni. Evrópusamstarfi er lykilatriði í þessum undirbúningi.