Drekkum vatn og drögum úr úrgangi

VA er heilsueflandi framhaldsskóli og eitt þema þess verkefnisins er næring. Mikilvægi þess að drekka nóg af vatni verður seint ofmetið og til að bæta aðgengi að vatni hafa verið settir upp vatnshanar á þremur stöðum í skólanum. Einnig hefur verið sett upp vatnsvél fyrir nemendur þar sem bæði er hægt að fá kolsýrt og ókolsýrt vatn.  

Til að byrja með voru einnota plastglös við þessar vatnsstöðvar en nú hefur sú leið verið endurskoðuð, enda VA þátttakandi í verkefninu Skólar á grænni grein og eitt fyrsta markmiðið sem við settum okkur þar var að draga úr úrgangi. Því var ákveðið að gefa öllum nemendum margnota brúsa og var byrjað á að útdeila þeim í lífsstílstíma hjá nýnemum. Aðrir nemendur skólans geta komið við hjá ritara og sótt sinn brúsa.