„Ef þið viljið fara í skóla þar sem þið eruð ekki bara tala á blaði þá er Verkmenntaskóli Austurlands hinn fullkomni skóli fyrir ykkur"

Eskfirðingurinn Adam Ingi Guðlaugsson, fyrrum nemandi VA stundaði nám við vélstjórn. Hann lauk B-stigi í VA áður en hann kláraði D-stigið í Tækniskólanum og nú er hann snúinn aftur í VA til að bæta við sig námi í rafvirkjun. Frá unga aldri hafði Adam alltaf haft mikinn áhuga á því að leggja stund á iðnnám og heillaði vélstjórn mest en ein helsta ástæðan fyrir því eru atvinnumöguleikar sem vélvirkjar/vélstjórar hafa úti í samfélaginu.

Adam er hæst ánægður með að hafa valið VA en það sem skipti hann mestu máli við val á framhaldsskóla var að skólinn heldur vel utan um nemendur nemenda auk þess að stemmingin inni í skólanum væri góð, óhætt er að segja að VA tikki í öll þau box að hans sögn.

Það sem stendur upp úr eftir skólagöngu hans í VA er Tæknidagur fjölskyldunnar. Tæknidagurinn var fyrst haldinn árið 2014 og er markmiðið með deginum að vekja áhuga almennings á fjölbreyttum og spennandi viðfangsefnum tækni, verkmennta og vísinda og örva sköpunargleði. Einnig að vekja athygli barna- og ungmenna á fjölbreyttum náms- og starfsmöguleikum á þessum sviðum. Það sem Adam fannst skemmtilegast er að vélstjórnarnemendur fengu að setja vélar í gang og sýna fólki sem sótti daginn vélarnar.

Adam taldi að VA hefði veitt honum góðan undirbúning fyrir Vélskóla Íslands, hann öðlaðist sjálfsábyrgð og skipulagningu sem hann segir að hafi komið með vinnnustofum úr VA. Að lokum er Adam beðinn að koma með heilræði til þeirra sem eru að velja sér nám. „Ef þið viljið fara í skóla þar sem þið eruð ekki bara tala á blaði þá er Verkmenntaskóli Austurlands hinn fullkomni skóli fyrir ykkur, og endilega kynna sér iðnnám vel þar sem möguleikarnir sem fylgja því eru endalausir!“