"Ég mæli hiklaust með VA"

Upplestur á frétt.

Seyðfirðingurinn Galdur Máni Davíðsson mun þann 23. maí útskrifast af félagsvísindabraut skólans. Galdur er 19 ára og hefur samhliða náminu æft og keppt í blaki með meistaraflokki Þróttar ásamt því að eiga landsleiki bæði í unglingalandsliðum og A-landsliðinu.

Þrátt fyrir að vera einn af bestu blakspilurum landsins byrjaði Galdur ekki að æfa blak fyrr en hann var í 10. bekk. Hann lýsir því hvernig blakferillinn byrjaði: „Það var í rauninni bara brandari á þeim tíma, fórum til þjálfarans einn daginn til þess að vera með vesen að spurja af hverju við í 10. bekk mættum ekki æfa en 9. bekkur mátti æfa. Hún svaraði því með að segja okkur að mæta bara á æfingu og gerðum við það bara upp á gamanið og komast í keppnisferðir til Reykjavíkur upp á gamanið. Síðan þegar menntaskólinn fór að byrja var ég spurður hvort að ég hefði áhuga á því að ganga til liðs við Þrótt og var boðið á landsliðsæfingar. Eftir það var ekki aftur snúið.“

Framhaldsskólaferillinn hófst í Menntaskólanum á Egilsstöðum en Galdur varð þreyttur á að keyra alltaf í Neskaupstað til að geta stundað blakið og ákvað þá að færa sig yfir í Verkmenntaskólann. Hann valdi að fara á félagsvísindabraut þar sem það var margt á þeirri braut sem honum fannst áhugavert og hann er þakklátur kennurunum fyrir að hafa valið þá braut.

Galdur sér ekki eftir því að hafa valið VA: „þar sem ég kynntist fullt af skemmtilegu fólki jafnt nemendum sem kennurum. Það sem mér fannst best við VA var náttúrulega að komast á æfingar og hvað maður kynnist nemendum og kennurum mun betur heldur en í ME til dæmis. Þetta er í rauninni bara eins og lítið samfélag þar sem allir þekkjast vel og eru góðir vinir“. Það var ekki bara jákvætt að komast á æfingarnar heldur er Galdur einnig þakklátur skólanum fyrir hversu þægilegt það var að stunda afreksíþróttir samhliða náminu. Skólinn sé mjög skilningsríkur gagnvart íþróttaiðkun nemenda sinna og þeirrar fjarveru sem t.d. landsliðsferðir krefjist.

Eins og augljóst má þykja hefur ýmislegt skemmtilegt hent á þessum árum, sem sumir kalla bestu ár lífsins. Þegar Galdur rifjar upp góðar minningar frá árunum í VA koma nýnemadagarnir, árshátíðin og stemningin í setustofunni fyrst upp í hugann en einnig það að flestir kennararnir hafi einhvern tíman æft blak og því sé auðvelt að ræða blakið við þá. Besta einstaka minningin hafi verið þegar Gústi kennari bað um sjálfu (selfie) með honum í tíma þegar hann hafi verið aðeins of upptekinn í símanum í miðri glærukynningu.

En hvernig undirbúning fékk Galdur í VA fyrir það sem á eftir kemur? „Ég að sjálfsögðu þroskaðist og áttaði mig betur á því að það er ekkert að því að biðja um hjálp þegar maður þarf á henni að halda. Ég lærði að einbeita mér betur og vera með markmið í lífinu“.

En hvað tekur við hjá Galdri? „Í augnablikinu er ég ekki að fara að eltast við meira nám en kannski seinna meir. Í staðinn ætla ég að eltast við blakið og mun koma í ljós hvað næsta skrefið verður þar“. Það verður spennandi að fylgjast með því hvað þessi magnaði blakari mun taka sér fyrir hendur eftir útskriftina.

Í lokin er viðeigandi að biðja Galdur um heilræði til þeirra sem nú eru að velja sér nám. „Ég mæli hiklaust með VA, sérstaklega þar sem að á Norðfirði er ekki mikið sem truflar þig frá náminu og íþróttagreininni. Því er auðveldara að leggja mikinn metnað og áhuga bæði í námið og íþróttina“.