Egill rauði styður myndarlega við skólann

Þann 4. desember sl. var úthlutað úr styrktarsjóði Ungmennafélagsins Egils rauða. Fékk skólinn tvo myndarlega styrki. Annars vegar fékkst styrkur upp á 325.000 krónur til þess að koma upp tækjum til afþreyingar fyrir nemendur með það fyrir augum að þjappa þeim saman og auka samkennd þeirra. 

Hins vegar fékkst styrkur upp á 600.000 krónur vegna námskeiðahalds í listakademíu skólans en mikil vinna hefur farið fram undanfarið ár við að rífa hana upp aftur í kjölfar heimsfaraldursins. 

Margrét Perla Kolka Leifsdóttir, umsjónarkona listakademíunnar og Eydís Ásbjörnsdóttir, skólameistari, tóku við styrkjunum við hátíðlega athöfn í Dalahöllinni.

Við þökkum Agli rauða innilega fyrir þennan myndarlega stuðning!