Sigur í fyrstu umferð Gettu betur í háspennu viðureign

Lið Verkmenntaskóla Austurlands sigraði Menntaskólann á Ísafirði í fyrstu viðureign Gettu betur spurningakeppni framhaldsskólanna. Lið VA skipa þau Marta Guðlaug Svavarsdóttir, Jökull Logi Sigurbjarnarson og Hekla Gunnarsdóttir.  Keppnin var jöfn og spennandi allan tímann en liðin nældu sér bæði í 17 stig í hraðaspurningunum. Vestfirðingar byrjuðu betur í bjölluspurningunum en Austfirðingar jöfnuðu metin þegar leið á keppnina. Enn var jafnt eftir bjölluspurningarnar og ljóst að síðasta spurning þáttarins sem er í formi tóndæmis myndi skera úr um hvort liðið færi með sigur af hólmi. Spurt var um Mariah Carey og voru nemendur Verkmenntaskóla Austurlands á undan á bjölluna og svöruðu rétt. Sigur þeirra var því staðreynd 31-29.

Dregið verður í  aðra umferð keppninnar í lok vikunnar og spennandi að sjá hvaða skóla VA mætir, en sigurvegari næstu umferðar mun taka þátt í 8 liða úrslitum sem fram fara í sjónvarpinu.