"Síðan þá hefur einmitt þessi hugsun, „go the extra mile“ skilað mér miklu í lífinu."

Upplestur á frétt.

Vordís Eiríksdóttir útskrifaðist af náttúrufræðibraut frá VA fyrir tólf árum síðan, vorið 2008. Útskriftarhópurinn taldi alls 38 nemendur og lauk Vordís náminu á þremur árum með frábærum árangri. Við ákváðum að taka Vordísi tali.

Hvenær og hvernig kviknaði áhuginn á því að feta þessa braut í námi (og starfi)?

Ég er jarðeðlisfræðingur og starfa hjá Landsvirkjun sem forstöðumaður jarðvarma. Í því felst að halda utan um rekstur þeirra jarðgufuvirkjana sem LV rekur á Norðausturlandi. En það eru Þeistareykir, Krafla og Gufustöðin í Bjarnarflagi, með samtals 155MW í uppsettu afli.

Ef ég hugsa um hvar áhugi minn á náttúruvísindum vaknaði verður mér strax hugsað til kennslu Einars Þórarinssonar. Hann kenndi okkur m.a jarðfræði og efnafræði í VA. Mér fannst þetta alltaf skemmtilegustu tímarnir og Einar mjög góður kennari.  Mér er sérstaklega minnistæð námsferðin sem hann skipulagði fyrir okkur í Mývatnssveit. Og það er kannski gaman að segja frá því að þegar ég tók við jarðvarmarekstrinum á Norðausturlandi og var að skipuleggja fyrstu ferðina mína norður, að þá gróf ég einmitt upp minnisbókina sem ég hafði haft með mér í þessari námsferð Einars. En ég hafði samviskusamlega skrifað nánast orðrétt upp frá Einari allt sem hann sagði um jarðfræði og sögu svæðisins. Ég mætti því norður með kollinn fullan af fróðleiksmolum í boði Einars.

En til að segja frá því, þá byrjaði ég nú háskólagöngu mína í rafmagnsverkfræði. Kannski var það til þess að uppfylla einhverja staðalímynd, að ég ætti að verða verkfræðingur þar sem ég væri sterk í raungreinum. En ég skipti síðan yfir í jarðeðlisfræðina eftir að fyrsta árinu í verkfræðinni lauk. Það var minnsta mál að skipta á milli þessara greina í HÍ þar sem fyrsta námsárið er nánast eins uppsett. Ég fór síðan að fá meiri og meiri áhuga á jarðhita og nýtingu hans eftir því sem leið á námið og einblíndi á áfanga tengda endurnýjanlegri orku og jarðhitanýtingu.

Hvað skipti þig mestu við val á framhaldsskóla?

Ég er uppalin í Neskaupstað og því lá beinast við að fara í framhaldsskólann þar. Ég held það megi því segja að staðsetningin hafi verið ráðandi í mínu vali.

Hvernig undirbúning fékkstu í VA fyrir það sem þú valdir þér í framhaldinu?

Ég fékk mjög fínan undirbúning í VA, ég var sterk í raungreinunum og fann ég var með mjög fínan undirbúning í efnafræði, eðlisfræði og jarðfræðinni. Enda valdi ég að taka alla þá áfanga sem voru í boði hjá VA á þeirri línu. En það sem ég hugsa kannski helst til er sú einstaklingsmiðaða kennsla sem VA býður upp á og hvað hún gerði manni gott. Það að vera umkringd kennurunum sem þekkja mann sem námsmann og sjá möguleikana í hverjum og einum, hafa trú á nemendum sínum og hvetja þá áfram út frá forsendum hvers og eins. Ég fékk til að mynda að skauta í gegnum námið á mínum hraða, og eftir 2.5 ár átti ég einungis 3 áfanga eftir. Þetta er svo mikilvægt, að geta og fá stuðninginn til að taka námið á sínum hraða og skiptir þá engu um það hvort menn taka námið hægar eða hraðar.

Segðu frá einhverju skemmtilegu frá árum þínum í VA

Kannski bara eitt dæmi um hvernig kennarar geta mótað og haft áhrif á nemendur sínar. Þar sem ég er svo ótrúlega upptekin af þessu núna, þ.e hvernig kennarar á öllum skólastigum geta mótað og haft áhrif á nemendur sínar.

En í einum áfanga sem Einar kenndi mér var lokaeinkunn aðeins gefin í heilum tölum. Ég fékk 9,7 í einkunn í lokaprófinu en Einar gaf mér 9 í lokaeinkunn. Ég var eðlilega ekki parsátt og fór í fússi á skrifstofuna til hans og vildi fá útskýringar. Hann sagði mér einfaldlega að hann gæti ekki bara deilt út tíu, 10 í einkunn þýddi að nemandinn hefði lagt sig extra fram og jafnvel vitað meira um námsefnið en til var ætlast. 10 ætti að þýða að nemandinn hefði framúrskarandi hæfni í námsefninu. Ég maldaði í móinn en vissi samt alveg hvað hann meinti með þessu. Hann hefði vel getað sleppt mér í gegn með 10, en hann vildi ýta við mér og hvetja mig til að leggja þetta auka á mig. Síðan þá hefur einmitt þessi hugsun, „go the extra mile“  skilað mér miklu í lífinu.

Hvaða skilaboð myndirðu senda nemendum (kannski bæði sem eru að velja sér framhaldsskóla og síðan háskóla eða annað sem tekur við eftir framhaldsskóla)

Það getur verið snúið að reyna velja sér framhalds og háskólanám til að fara í, og þá er gott að muna að menntun og starfsferill þarf ekki að vera línulegt ferli. Það má skipta um skoðun, það má breyta um námsbraut, það má taka U-beygju, og jafnvel margar bara.

Gamla klisjan, gerðu það sem þér finnst skemmtilegt og spennandi, er í fullu gildi hér.

Finndu út hverjir styrkleikar þínir eru, og þróaðu þá áfram. Ekki falla í þá gryfju að vera sífellt að reyna bæta veikleika þína og enda svo með fullt af sterkum veikleikum.

Lítið dæmi, ég hef starfað (með mína jarðeðlisfræðimenntun) sem sérfræðingur í umhverfismálum, veðurfréttamaður, sérfræðingur í gagnaöflun og greiningu, við greiningar á efnasýnum á rannsóknarstofu, verkefnisstjóri umbótaverkefna, og nú sem forstöðumaður reksturs jarðgufuvirkjana. Menntun og starfsferill þarf svo sannarlega ekki að vera línulegt eða hólfað niður eftir menntun.

 

             Mynd tekin af Vordísi í Holuhrauni 2014. Þarna var hún í hópi jarð- og eldfjallafræðinga að leita að heppilegum sýnatökustað ofan á 2-3ja vikna gömlu hrauni