Hvað er framundan?

Heil og sæl

Nú hefur heilbrigðisráðherra birt breytingu á reglugerð um takmörkun á skólastarfi. Breytingin gildir til og með 10. nóvember 2020.

Áhrifin á starf okkar í VA eru þau að nú verður í gildi 2ja metra nándarregla í skólanum og á heimavistinni.

Hér á eftir má sjá hvernig fyrirkomulagið framundan er hjá okkur í VA.

Stúdentsbrautir:

  • Fjarkennsla verður áfram með sama hætti og verið hefur undanfarnar tvær vikur.
  • Dagskólanemendur á stúdentsbrautum eru hér með boðaðir á Teamsfund með stjórnendum skólans þriðjudaginn 20. október kl. 12:30. Hlekkur á fundinn verður sendur til nemenda í tölvupósti í dag. Við viljum heyra í ykkur hljóðið; Hvernig gengur? Hvað getum við gert til að styðja ykkur sem best í fjarnáminu? Hvernig líkar ykkur fyrirkomulagið?

Iðnnám (þ.á.m. dreifnám í rafiðn), framhaldsskólabraut og starfsbraut:

  • Áfram verður kennt á staðnum á þessum brautum með sama hætti og verið hefur. Einstaka undantekningar eru á þessu sem nemendur eru þegar upplýstir um.
  • Viðbúið er að grímunotkun verði aukin vegna 2ja metra nándarreglu. Kennarar stýra grímunotkun í sínum tímum en ekki verður enn sem komið er sett alger grímuskylda innan skólans.
  • Við hvetjum nemendur til þess að mæta vel í kennslustundir á staðnum og nýta tímana vel. Allt er breytingum háð þessa dagana og því lykilatriði að nýta aðgengi að verklegum stofum vel.

Gulir dagar og viti framundan

  • Dagana 23., 26. og 27. október eru námsmatsdagar í VA. Skólinn og heimavistin verða lokuð þessa daga.
    • Við hvetjum nemendur til að njóta þessara daga sem best með sínum nánustu og helst að taka skjáhvíld eins og mögulegt er. Gleymum samt ekki sóttvörnum á þessum tíma og höldum áfram að hlýða honum Víði!
  • Viti er leiðarljós, ætlað til að hjálpa okkur við að staðsetja okkur. Miðvikudaginn 28. október verða kennarar búnir að skrá ,,vita” hjá nemendum sínum. Vitinn er umsögn um stöðu nemenda en áður er búið að birta ljósker sem einnig er hugsað til að vísa nemendum leiðina. Mikilvægt er að allir kynni sér umsagnirnar vel og nýti þær til að halda réttri stefnu í náminu.

Við erum að fara í gegnum krefjandi tíma og þurfum að styðja vel hvert við annað. Hlúum hvert að öðru og vinnum saman. Látum vita ef einhver þarf á aðstoð eða stuðningi að halda. Guðný náms- og starfsráðgjafi ( gudnybjorg@va.is )er innan seilingar og eru nemendur hvattir til að hafa samband við hana eða umsjónarkennara ef þörf er á. Í sameiningu er hægt að leysa svo margt. Það sem getur virkað óyfirstíganlegt er oft ekki lengur óyfirstíganlegt eftir að það hefur verið fært í orð í samtali við aðra. Við erum öll hér til staðar fyrir ykkur.

Saman klárum við þetta.

Góð kveðja,

skólameistari