Tækni, vísindi og nýsköpun á Tæknidegi fjölskyldunnar

Mynd: Kristín Hávarðsdóttir
Mynd: Kristín Hávarðsdóttir

Tæknidagur fjölskyldunnar var haldinn í áttunda sinn laugardaginn 1. október. Markmið dagsins er að gera tækni, vísindum og nýsköpun hátt undir höfði og sýna þá möguleika sem nám í þeim greinum veitir.

Veðrið var með ágætum í Neskaupstað þrátt fyrir örlitla vætu og streymdi fólk að í gegnum daginn. Þegar formleg dagskrá hófst kl. 12 höfðu allir þátttakendur stillt sér upp og dreifðust þeir afar vel um svæðið, bók- og verknámshús VA, íþróttahúsið og bílaplanið á milli húsanna.

Í bóknámshúsi var fjöldi atriða þar sem meðal annars var hægt að gera litríkar tilraunir, kynna sér námið í hárdeildinni, spreyta sig á Gettu betur prófi, gæða sér á síld, vaða reyk og fylgjast með Dodda kryfja. Einnig var öllum boðið að skoða nýju aðstöðuna innan skólans sem verður gjörbylting varðandi andann og lífið í skólanum. Í tilefni af því var öllum boðið upp á kaffi og með því.

Í verknámshúsi var allt á fullu. Fab-labið var keyrt linnulaust, í málm- og vélgreinadeild, rafdeild og tréiðndeild var hægt að kynnast náminu í deildunum og vinna alls kyns verkefni. Inn af tréiðndeildinni var landslagssandkassin og fjölmörg börn eyddu töluverðum tíma í honum. Í verknámshúsi voru einnig fulltrúar Rafmenntar og kynntu ýmislegt sem tengist námi í rafiðngreinum.

Í íþróttahúsinu var hægt að kynnast sálfræði og námi í henni í VA, hægt var að velja fallegasta orðið í íslensku, koma með hugmyndir af nafni á nýjan sal skólans og hægt að fá mælingu á ýmislegu sem tengist stökkum. Einnig var fjöldi fyrirtækja og stofnana að kynna starfsemi sína og gestir gátu prófað ýmislegt. Einn stærsti viðburðurinn í íþróttahúsinu var án efa veiting verðlauna fyrir Nýsköpunarkeppni grunnskólanna í Fjarðabyggð en keppnin er haldin í samstarfi VA og Matís. Nemendur á unglingastigi í grunnskólunum unnu hugmyndir þar sem þeir nýttu þang og þara úr nágrenni sínu undir styrkri stjórn kennara sinna í sex vikur. Fram komu um 30 frábærar hugmyndir sem allar hefðu getað endað á verðlaunapallinum. Eftir langa yfirlegu dómnefndar var það verkefnið Þaraplast sem var verðlaunað sem besta verkefnið. Það eru þeir Júlíus Sigurðarson og Svanur Hafþórsson, nemendur í 9. bekk Nesskóla sem unnu verkefnið. Dómnefnd sagði um verkefnið: “Mikil nýsköpun er í verkefninu og höfundar hafa flotta framtíðarsýn um hvernig hugmyndin breytir heiminum.” Einnig voru veitt verðlaun fyrir annað og þriðja sæti. Í öðru sæti var verkefnið Fjörusalt en það voru þau Þór Theódórsson og Stefanía Guðrún Birgisdóttir, nemendur í 9. bekk Nesskóla sem unnu það. Í umsögn dómnefndar sagði: “Metnaðarfull hugmynd um nýtingu fjalls og fjöru og verður spennandi að sjá hana koma á markaðinn.” Í 3. sæti var svo verkefnið Þaramálning en það voru þær Anna Ragnarsdóttir, Ólafía Danuta Bergsdóttir og Kolka Dögg Ómarsdóttir úr 9. bekk Eskifjarðarskóla sem unnu það verkefni. Í umsögn dómnefndar sagði: “Verkefnið er afar frumlegt og mikil nýsköpun felst í hugmyndinni. Frumgerð var ekki til staðar við kynninguna en það verður spennandi að sjá hana verða að veruleika.” Hr. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, heiðraði Tæknidaginn með komu sinni og veitti nemendum verðlaunin. Framtíðin er svo sannarlega björt hjá þessum frumkvöðlum framtíðarinnar.

Á útisvæði á milli húsanna var hægt að skoða slökkviliðs- og sjúkrabíla. Bíll var klipptur í sundur og gátu gestir því fylgst með slökkviliði að störfum. Einnig var körfubíll Launafl til sýnis.

Dagurinn var í heild alveg frábær og sneru öll heim glöð í bragði. Við notum tækifærið hér og þökkum sýnendum, starfsfólki og nemendum fyrir sitt framlag. Auk þess styrktaraðilum dagsins, Síldarvinnslunni, Sún, Sparisjóði Austurlands og Fjarðabyggð. Sérstakar þakkir fá nemendur skólans þeir Arnór, Dagur, Geir og Ragnar en þeir settu upp salinn í íþróttahúsinu undir stjórn þeirra Guðjóns Birgis Jóhannssonar og HS kerfa. Án alls þessa yrði Tæknidagurinn ekki að veruleika.

Myndir: Kristín Hávarðsdóttir