Erasmusverkefnið DEPEND

VA tekur þátt í erlenda samstarfverkefninu DEPEND með Gospodarska skola í Čakovec í Króatíu, Szegedi Móravárosi Szakképzö Iskola í Szeged í Ungverjalandi, Instituto di Instruzione Superiore Roncalli í Poggibonsi á Ítalíu, Gimnazija Celje Center í Celje í Slóveníu og Odda vidaregaadne skule í Odda í Noregi. Viðfangsefni verkefnisins er fíkn (e. addiction) og hófst verkefnið formlega í Ungverjalandi í nóvember 2021 þegar Salóme og Birgir hittu kollega sína frá hinum löndunum til skipulagningar. Hóparnir hittast síðan í hverju landi fyrir sig, tveir nemendur og tveir kennarar frá hverju landi og vinna að forvarnatengdum verkefnum.

Fyrsti svoleiðis hittingurinn var í Slóveníu vikuna 21. - 25. mars 2022. Gestgjafar okkar í Slóveníu settu saman heljarinnar dagskrá fyrir þátttakendur og var hún virkilega vel heppnuð.

Þær fíknir sem einblínt var á í tengslum við þennan hluta verkefnisins var áfengi, fíkniefni, fjárhættuspil, skjánotkun og matur (bæði matarfíkn og átröskun). Kennarar fengu svo að hugstorma varðandi fíkn annars vegar í tengslum við sambönd og svo hins vegar varðandi vinnufíkn.

Hópastarf var mikið notað þar sem bæði nemendum og kennurum var blandað saman og gafst það vel. Nemendur voru óhræddir við að tjá sig um sín málefni og voru virkir þátttakendur í öllu því sem unnið var að. Til að hita mannskapinn upp fyrir aðalverkefnið var m.a. farið í umræður um hvað fíkn væri, hvaða aðstoð væri til boða í heimalöndum þátttakenda fyrir þá sem glíma við fíkn og hvort nemendur vissu af því að hægt væri að leita sér aðstoðar vegna mismunandi fíkna.

Aðalverkefnið var svo að gera skoðanakönnun varðandi mismunandi fíknir, sem verða svo lagðar fyrir í öllum þátttökuskólunum og ræddar á hittingunum sem framundan eru. Fyrir þetta verkefni var nemendum skipt í hópa og hver hópur fékk sína fíkn til að búa til spurningalista. Hér er óhætt að segja að virkni þátttakenda hafi verið mjög góð.

Einnig var farið í skoðunarferðir og blönduðust nemendurnir vel saman og urðu til vinasambönd fyrir lífstíð. Nemendur gistu heima hjá erlendum nemendum og fengu þar að kynnast menningu landsins beint í æð.

Í lokin voru öllum veittar viðurkenningar fyrir þátttökuna og fór sú afhöfn fram í ráðhúsinu í Celje, þar sem borgarstjórinn afhenti viðurkenningarnar.

Næsti hittingur verður í Noregi 9.-13. maí þar sem áfram verður unnið með málefnið og verður þá búið að leggja könnun um skjáfíkn fyrir nemendur í öllum skólunum sem unnið verður með í framhaldinu.

Á meðfylgjandi myndum má sjá frá ferðunum.