Forskot á sæluna

Nemendur Verkmenntaskóla Austurlands tóku forskot á sæluna og minntust 100 ára fullveldisafmælis Íslands í morgun, tímamótunum verður fagnað víðsvegar á morgun 1. desember en þá verða liðin 100 ár frá fullveldistökunni. Nemendur héldu ræður um tildrög fullveldisbaráttunnar, mikilvægi fullveldisins og atburði ársins 1918. Einnig ákvaðu ræðumenn dagsins að skoða aðrar hliðar málsins eins og stuðning Vestur-Íslendinga við samlanda sína í aðdraganda fullveldis og mikilvægi fánans sem sameiningartákns fullvalda þjóðar. Lögðu þeir nemendur sem tóku til máls áherslu á mikilvægi áfangans og færðu rök fyrir því að þann 1. desember 1918 urðu stærri þáttaskil í sögu þjóðarinnar en 17. júní 1944.